149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[17:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Vestfjarða, það er alveg hægt að orða það þannig, eða Norðvesturkjördæmis, fyrir að koma hingað upp og spyrja að þessu. Ég held að mjög mikilvægt sé að við sem erum þingmenn og störfum í stjórnmálum, en líka við sem höfum starfað innan stjórnsýslunnar, virðum regluna um meðalhóf. Það er alveg ljóst að mínu mati sem lögfræðings og líka þekkjandi fiskeldismálin ágætlega að meðalhófsins hefur ekki verið gætt í málinu né sjónarmiða í þá veru að ákvarðanir stjórnsýslunnar sem teknar eru eigi ekki að valda tjóni og koma eigi í veg fyrir það. Hvaða leiðir eru þá til? Það er það sem við deilum um. Við deilum ekki um hvort fara eigi í aðgerðir og reyna að skoða hvaða leiðir eru til. Það skiptir máli að bregðast við og tala skýrt.

Það sem ég óttast, og þá er ég með hagsmuni m.a. greinarinnar í huga, er þessi leið sem er ekki skýr. Mér finnst ég ekki hafa fengið skýr svör frá hæstv. umhverfisráðherra í dag. Hvað tekur við þegar við erum búin að afgreiða málið hér? Segjum að málið verði afgreitt á þennan hátt, sjávarútvegsráðherra fer væntanlega og afgreiðir málið sín megin en hvað ætlar umhverfisráðherra að gera? Þurfa Vestfirðingar og greinin þá að halda áfram að bíða? Mér finnst ég ekki hafa fengið nógu skýr svör til þess að ég geti sagt nákvæmlega hvernig það eigi að vera af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Það er alveg ljóst að við þurfum að fara vel yfir þetta. Við þurfum að skoða þetta með meðalhófið, almennar stjórnsýslureglur, í huga. Við tökum síðan stóru umræðuna um fiskeldið, um auðlindagjöldin o.fl., þegar við fáum stærra frumvarpið.

Mér finnst vera mjög mikið svigrúm fyrir huglægt mat ráðherra á þeim grunni. Mér finnst hlutlæga matið ekki nægilega niðurnjörvað í frumvarpinu. Það er eitthvað sem við förum yfir á eftir og skoðum. Ég vara þess vegna við því og velti fyrir mér hvort ekki hefði verið betra að setja frekar bráðabirgðaákvæði varðandi frestun réttaráhrifa, svipað ákvæði (Forseti hringir.) og er í öðrum lögum hjá umhverfisráðherra, og færa þá í þessu tiltekna máli ráðherra sjávarútvegsmála heimild til (Forseti hringir.) að bregðast við og fresta réttaráhrifum.

Ég undirstrika það sem kom (Forseti hringir.) fram á fundi atvinnuveganefndar fyrr í dag. Þar voru menn ekki sammála því (Forseti hringir.) að slíka heimild þyrfti, ráðherra gæti þess vegna afgreitt þetta.