149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[17:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Við þurfum að afgreiða frumvarp sem inniheldur einmitt þessa þætti, ekki þá þætti sem hv. þingmaður fjallaði um, þ.e. að við tryggjum að við afgreiðsluna minnkum við ekki kröfurnar varðandi mat á umhverfisáhrifum o.s.frv. Formið skiptir máli. Það er frægt mál í sögunni einmitt sem segir: Formið skiptir máli. Þess vegna vil ég undirstrika að það á ekki að taka því sem léttvægu hjali eða ábendingum þegar við segjum að við ætlum að fara yfir málið þannig að það verði sem best úr garði gert og við sendum frá okkur sameiginlegan skilning á því hvernig umhverfi við viljum hafa. Ég trúi ekki öðru en hv. þingmaður taki undir með mér í því að við viljum hafa skýrar kröfur í fiskeldi varðandi tillit til lífríkis, umhverfis og náttúru.

Gott og vel. Ég vil spyrja hv. þingmann og þætti gott að fá svar við því: Veit hv. þingmaður hvernig hæstv. umhverfisráðherra ætlar að afgreiða málið af sinni hálfu? Ef og þegar málið verður afgreitt kemur það til kasta sjávarútvegsráðherra, hann afgreiðir það með sínum hætti. Mér sýnist hann ætla að gera það nokkuð hratt. Umhverfisráðherra gaf það í skyn fyrr í dag að hann ætli að nýta sér þessar þrjár vikur. Það skiptir máli fyrir þingið að vita það og samfélagið hvað umhverfisráðherra, sem situr í ríkisstjórn undir forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, ætlar að gera. Mér finnst við eiga rétt á að fá að vita heildarmyndina þegar við ræðum þennan hluta málsins líka.