149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[17:41]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar svona neyðarástand skapast hefur fólk oft tilhneigingu til að láta grundvallaratriði þjóta út um gluggann. Ég hef tekið eftir því í gegnum tíðina að við Íslendingar leggjum oft ekki mikið upp úr ferlum eða formlegheitum og okkur hættir svolítið til að einblína á einföldu lausnina eins og að framselja ákvörðun til ráðherra og auka vald ráðherra í sífellu. Stjórnsýsla á Íslandi stendur oft mjög veikt. Mig langar, með leyfi forseta, til að vitna í fréttatilkynningu frá Landvernd frá því í dag:

„Það er ákvörðun og áhætta fyrirtækja að hefja starfsemi þrátt fyrir augljósa ágalla á henni sem varða við landslög, eins og það að kostagreining fór ekki fram. Réttur umhverfisverndarsamtaka til þess að láta reyna á framkvæmda- og starfsleyfi fyrir starfsemi sem hefur skaðlegar afleiðingar fyrir umhverfið fyrir óháðum aðila er lítils virði þegar ráðherrar setja lög á úrskurði þessa óháða aðila.“

Þetta er svo sem mjög í anda málflutnings hæstv. umhverfisráðherra frá þeim tíma sem hann var framkvæmdastjóri samtakanna. Ég vil vitna í hann, með leyfi forseta:

„Framkvæmdastjóri Landverndar segir það fráleita hugmynd að ríkisstjórnin blandi sér í málið með beinum hætti meðan það er til umfjöllunar í óháðri úrskurðarnefnd. Slíkt sé brot á Árósasamningnum og öðrum alþjóðasamningum.“

Ég tek ekki eins djúpt í árinni og hæstv. umhverfisráðherra gerði árið 2016 þegar hann tjáði sig um Þeistareyki og Kröflu en það er svolítið áhyggjuefni fyrir mig hversu rík tilhneiging er til að framselja vald til ráðherra strax í staðinn fyrir að íhuga betur þann lagaramma sem við höfum sett. Það ástand sem hefur skapast er af völdum trassaskapar á þessu þingi, alveg eins og slæmt ástand á Vestfjörðum er vegna þess að þingið hefur hunsað það í gegnum tíðina með vanhugsaðri löggjöf, eins og t.d. um kvótakerfið sem við mörg munum eftir.

Þegar mikið liggur við getur þingið komið saman og sett löggjöf til að leysa vandræði. Ég er mjög ánægður með að þingið taki þetta alvarlega og komi saman með hraði en mér finnst að við getum gefið okkur smátíma til að vanda vel til verka og heyra fleiri tillögur. Mér finnst ekki nógu skýrt hvort þetta sé eina færa leiðin í stöðunni. Ég vildi gjarnan fá að heyra í fleiri sérfræðingum að sunnan með það mál. Mér finnst það alls ekki ljóst.

Ég vil frekar að við skerum niður völd ráðherra í stað þess að auka þau því að sumir hafa fyrst og fremst atvinnuhagsmuni að leiðarljósi meðan öðrum er aðallega umhugað um náttúruverndarsjónarmiðin. Mál af þessu tagi verða ekki leyst með geðþóttaákvörðunum frá einni manneskju. Þess vegna erum við með umhverfismat, Matvælastofnun og aðrar stofnanir, annars gætum við bara strokað yfir allt íslenska lagasafnið, stjórnarskrána í leiðinni og skilið eftir yfirskriftina: Ráðherra ræður.