149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[17:44]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt langt og tek undir það sem rætt hefur verið nú þegar. Það er gríðarlega mikilvægt að taka á þeirri óvissu sem er uppi. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir samfélagið á Vestfjörðum og mjög brýnt þar af leiðandi að þingið vinni málið hratt og fumlaust.

Ég hef hins vegar dálitlar áhyggjur af því þegar umræðan snýr að því hversu hratt eða fumlaust eigi að vinna málið. Umræðan á göngum þingsins virðist vera að málið eigi klárast í kvöld eða nótt, svo brýnir hagsmunir séu í húfi. Á sama tíma hefur í umræðunni verið spurt, og því alls ekki svarað með fullnægjandi hætti að mínum mati, hvort önnur ráð séu þegar fyrir hendi, hvort aðrar leiðir séu þegar fyrir hendi í lögunum. Í öðru lagi: Hvers vegna þessi tímarammi? Af hverju getur þingið ekki tekið sér einn eða tvo daga til að vinna málið af vandvirkni? Ég nefni þetta í því samhengi.

Mér er það stórlega til efs að þeim fjölmörgu hagsmunaaðilum úti í samfélaginu sem kunna að hafa skoðun á málinu sé ljóst að þingið muni jafnvel klára það í kvöld, að ekki verði gefinn eðlilegur tími eða frestur til að veita umsagnir um málið eða koma skoðunum sínum á framfæri. Það finnst mér ekki ásættanleg vinnubrögð þegar þingið á í hlut. Við höfum ótal dæmi um mistök sem hafa verið gerð í þessum sal í flumbrugangi, í flýti. Ég sé ekkert og hef ekki enn þá heyrt — og ég sé að hæstv. sjávarútvegsráðherra hristir hausinn og fussar og sveiar. (Sjútvrh.: Nei, alls ekki.) En hvað er það í málinu, og hæstv. ráðherra getur þá kannski frætt mig um það, sem kallar á að það sé klárað hér og nú í stað þess að þingið taki sér einn eða tvo daga í að vinna það af sæmilegri vandvirkni þannig að sómi sé að?

Ég hef ekki heyrt annað en að jafnvel þótt sú staða kynni að koma upp, eins og hefur verið bent á í umræðunni, að Matvælastofnun beri í raun og veru skylda til að loka starfseminni, sé slík ákvörðun kæranleg til hæstv. ráðherra sem hafi valdheimildir til að fresta henni. Einnig hefur verið bent á að óljóst sé hvar hinn angi málsins liggi, þ.e. hvað varðar ákvarðanir umhverfisráðherra um sama mál og hversu langan tíma það kann að taka.

Ég sé ekki rökin fyrir slíkum asa. Þingið ætti að geta tekið sér dag eða tvo til að gefa hagsmunaaðilum tíma til að koma skoðunum sínum á framfæri, svo að fullvissa sé fyrir því að þetta sé góð og vönduð leið til að leysa vandamálið í eitt skipti fyrir öll. Ég óttast þennan asa þegar ekki eru skýr og sterk rök fyrir því að flýta málsmeðferð svo mjög.

Ég tek fram enn og aftur að ég styð málið. Ég hef sjálfur ekki rekist á stórkostlega annmarka á því, það er ekki það sem ég óttast. Ég veit hins vegar sem er að oft koma ýmsir ágallar fram í málum í umsagnarferli. Til þess erum við með vandað umsagnarferli. Við viljum leyfa hagsmunaaðilum að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og eigum ekki að óttast það. Það þurfa því að vera mjög ríkar ástæður fyrir því, sem ég hef ekki heyrt í umræðunni í dag, að vinna málið svona hratt.