149. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[22:52]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hér hefur atvinnuveganefnd nú lokið umfjöllun sinni og fékk á fund sinn nokkra gesti, fulltrúa umhverfisráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Matvælastofnunar, auk þriggja lögfræðinga sem komu hver úr sinni áttinni. Eins og kemur fram í nefndarálitinu er talið að hér sé verið að bregðast við ágöllum á lögunum og að ekki sé á neinn hátt verið að ógilda niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hins vegar verður að vera einhver varnagli til að ekki sé hægt að kollvarpa heilu samfélögunum að óþörfu eins og ég kom inn á í 1. umr. Þau rök komu fram á fundi nefndarinnar að sterkara og eðlilegra væri að fara þessa leið frekar en að fresta réttaráhrifunum, enda hefur þá ráðherra tækifæri til að takmarka þetta tímabundna leyfi, þ.e. setja mögulega frekari skilyrði, binda það í tíma og óska eftir úrbótum, nokkuð sem ekki er mögulegt ef aðeins réttaráhrifum er frestað.

Þá kom fram að mögulega væri orðalagið sem lagt var til í frumvarpinu fullopið og var niðurstaða nefndarinnar, eins og kemur fram í nefndarálitinu og breytingartillögu nefndarinnar, að þrengja það lítillega enda mikilvægt að ljóst væri að ekki væri verið að hugsa þetta sem viðbrögð í þeim málum þar sem rekstraraðilar eru að missa leyfi vegna brota á starfsleyfi, heldur eingöngu þar sem eru annmarkar á leyfisgjöfinni.

Auðvitað hefði verið æskilegt og til bóta að taka meiri tíma til umfjöllunarinnar í nefndinni en ljóst er að aðstæður knýja á um að brugðist sé við. Sömuleiðis er mikilvægt að halda því til haga að nauðsynlegt er að styðja betur við þær stofnanir sem sinna leyfisveitingum og eftirliti með fiskeldinu og þurfum við að horfa til þess í fjárlagagerðinni, sem nú stendur yfir, að styrkja þær.

Sömuleiðis þurfum við að skoða það við heildarendurskoðun fiskeldislaga síðar á árinu að fjalla um málið að nýju og gæta að því að allt sé eins vandað í þeirri löggjöf og mögulegt er.

En ég styð sem sagt niðurstöðu nefndarinnar.