149. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[22:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Núna getur þingið unnið hratt, afbrigði og alls konar á einum degi. Manni þætti það vænt ef þingið gæti unnið svona hratt í ýmsum öðrum málum, en því er ekki alltaf að fagna, sérstaklega þar sem málsmeðferðin er eins og hún er og það eru ýmsar spurningar sem vakna þegar öllu er flýtt svona í gegn. Til dæmis er gert ráð fyrir því að hægt sé að gefa út bráðabirgðaleyfi til tíu mánaða og svo endurnýja einu sinni til tíu mánaða í viðbót. Samt er sagt í greinargerð, með leyfi forseta:

,,Telja verður að á tíu mánuðum ætti rekstrarleyfishafa að vera fært að ná fram tilgangi rekstrarleyfis til bráðabirgða í hverju og einu tilviki …“

Það hljómar eins og tíu mánuðir séu alveg nóg og þess vegna er pínulítið undarlegt að það sé veitt leyfi fyrir því að taka aukalega tíu mánuði.

Starf þingmannsins er áhugavert og dálítið öðruvísi starf og skilgreint í rauninni bara á einn hátt í stjórnarskrá, þ.e. að fylgja sannfæringu. Það bendir til þess að þingmenn, samt alls ekki allir, að sjálfsögðu, séu sérfræðingar í öllum málum, en þeir geta ekki verið það. Það er ómögulegt. Þess vegna stólum við þingmenn á það að fá álit sérfræðinga á hverju og einu máli sem kemur fram og að sjálfsögðu geta ekki allir verið sérfræðingar í fiskeldismálum. Við stólum á það að fá umsagnir frá ýmsum aðilum. Þegar málsmeðferðin er eins og hún er í dag vantar fullt af umsögnum, það hefur komið fram í ræðum þingmanna núna við 2. umr.

Því höfum við í þingflokki Pírata lagt fram breytingartillögu um að gera það ákvæði sem er bætt hérna við að tímabundnu ákvæði sem þýðir að ákvæðið sem er bætt við hérna gildir bara til áramóta. Ráðherra hefur boðað breytingar á þessum lögum í haust og þá er hægt að taka á því í eðlilegu þingferli með öllum umsagnarfresti og eðlilegri umræðu í þinginu hvort það sé tækt að hafa þetta varanlegt.

Það sem við mótmælum er að það eigi að vera varanleg heimild til ráðherra þegar greinilega er miðað að þeim einstöku málum sem hérna er fjallað um. Við verðum að viðurkenna það fyrir okkur. Þetta er lagabreyting á einum degi til að tækla ákveðin einstök mál. Þetta er ekki almenn heimild fyrir ráðherra nema að akkúrat eins og frumvarpið er núna er þetta almenn heimild en á ekki að vera það af því að þetta er ætlað til þess að laga ákveðið vandamál.

Þegar frumvarpið kemur til umræðu er væntanlega búið að taka ákvörðun um að veita tíu mánaða rekstrarleyfi, bráðabirgðarekstrarleyfi. Ef ákvæðið rennur út um áramótin væri ekki hægt að framlengja það upp á nýtt. Það skiptir í rauninni ekki máli af því að tíu mánuðir duga samkvæmt greinargerð frumvarpsins. Þá erum við þó búin að fara í gegnum umræðuna með frumvarpinu sem kemur í haust um það hvernig við eigum að taka á þessu á varanlegan hátt, ekki á því hundavaði sem við vinnum á hérna í dag.