149. löggjafarþing — 16. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[23:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég þakka öllum þingmönnum fyrir góð viðbrögð við þeim fordæmalausu aðstæðum sem laxeldisfyrirtæki og byggðin á Vestfjörðum og íbúar þar eru nú í eftir að fyrirtækin voru svipt rekstrarleyfi og starfsleyfi af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ég ætla ekki að deila um þá niðurstöðu þó að hún sé mjög umdeild. En í ljós kom að æðsti maður þessa málaflokks verður að hafa einhverja möguleika á að bregðast við svona fordæmalausum aðstæðum og gæta meðalhófs og geta átt möguleika á að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða. Ég tel það hafa verið rétt að þetta mál standist alla skoðun og er það stutt af sérfræðingum sem komu fyrir nefndina. Ég vona að það verði til þess að þessi fyrirtæki, sem munu væntanlega sækja um bráðabirgðaleyfi, geti komist í það skjól sem til þarf og geti bætt úr því sem á vantaði að mati úrskurðarnefndar.