149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög auðvelt að útskýra það fyrir hv. þingmanni. Í fyrsta lagi erum við að fara í orkuskipti í samgöngum í tengslum við loftslagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Við núverandi aðstæður greiða dísil- og bensínbílar 17, 18 milljarða í skatta sem renna beint til veganna. Árið 2030, eftir 12 ár, er áætlað, ef þær aðgerðir takast, að búið verði að helminga þann fjölda af bílum. Þá verður gjaldið orðið sennilega nær 7 milljörðum. Það mun enginn sætta sig við það að fá 7 milljarða til vegaframkvæmda. Þess vegna er þetta ekki bara spurning um viðbótarálögur, hv. þingmaður. Það er spurning um að notendur greiði í auknum mæli meira fyrir aðganginn að vegakerfinu hvaða leið sem síðan verður valin. Þetta er starfshópur á mínum vegum að kanna í dag og jafnframt að kanna hvort við getum fjármagnað einstakar framkvæmdir með svona samvinnuleið, samvinnuverkefni, (Forseti hringir.) til þess að flýta þeim verkefnum. (Forseti hringir.) Það væri sparnaður fólginn í því á nákvæmlega sama hátt og Hvalfjarðargangamódelið var. Getum við gert það víðar?