149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

andlát vegna ofneyslu lyfja.

[10:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er auðvitað mikilvægt að eiga orðaskipti í gegnum ræðustól Alþingis en ég vil biðja um að orð mín séu ekki mistúlkuð, vegna þess að það er alvarlegt að gera. Þegar ég segi að staða okkar í geðheilbrigðismálum sé góð miðað við það sem sums staðar gengur og gerist í heiminum en að við getum samt gert betur er það nákvæmlega það sem ég er að segja. Ég er ekki að segja að það dugi til og að við þurfum ekki að gera meira. Ég bið hv. þingmanna að láta mig um að túlka orð mín og hún sér svo um sín.

Er ásættanlegt að 39 einstaklingar hafi dáið? Dettur einhverjum í hug að svarið sé já? Dettur einhverjum í hug að það sé ekki daglegt viðfangsefni heilbrigðisyfirvalda í ábyrgu ríki að hafa áhyggjur af slíku? Hvers konar umræða er það að gefa því rými yfir höfuð að einhver heilbrigðisráðherra í einhverri ríkisstjórn í einhverju landi á einhverjum tímum segi: Já, það er ásættanlegt. Ég vil biðja þingmanninn að gæta að því að þetta er grafalvarleg umræða. Hún er ekki til þess fallin að gera því skóna að fólk hafi ekki áhyggjur af stöðunni. Það hef ég sannarlega og hef beitt mér í þá veru að breyta umgjörð lyfjamála til að draga úr læknadópi, eins og það er kallað, í umferð. (Forseti hringir.) Ég hef kallað (Forseti hringir.) eftir tillögum og upplýsingum þeirra sem best þekkja til eftir aðgerðum. Mörgum þeirra hefur verið komið (Forseti hringir.) til framkvæmda. Betur þarf að gera, enn þá frekar, bæði í forvarnamálum og meðferðarmálum. En þetta er, virðulegur forseti, mál sem er á dagskrá á hverjum degi í ráðuneyti heilbrigðismála.