149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

ríkisfjármál.

[11:08]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Við erum með fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem byggir á þeim spám sem liggja fyrir, sem við búum ekki til sjálf heldur eru unnar annars staðar. Meðan þær spár eru með þeim hætti sem raun ber vitni telja menn óhætt að vera með útgjöldin eins og þau eru í fjármálaáætlun. Ég tek undir með hv. þingmanni, við höfum verið í uppsveiflu. Það er spurning hvort sú uppsveifla sé að breytast, sé að minnka og hvort við lendum henni mjúklega eða ekki. Auðvitað munum við leggja upp með að það verði gert mjúklega. En á meðan kakan stækkar og á meðan við setjum fjármagn í málaflokka sem auka lífsgæði þess fólks sem býr hér finnst mér það í lagi. Það er ekki þar með sagt að með því að setja t.d. aukna fjármuni í heilbrigðiskerfið jafngildi það betri þjónustu sem því nemi. Mér finnst mikilvægt að horfa til þess.

Varðandi almannatryggingakerfið og öryrkja er gert ráð fyrir 4 milljörðum, það er alveg spurning hvort það dugir eða ekki en gert er ráð fyrir 4 milljörðum. (Forseti hringir.)

Varðandi samgöngumálin er það efni í aðra umræðu. Ég er mikill talsmaður þess að horfa til annarra leiða þegar kemur að því að byggja upp innviði samgöngumannvirkja vegna þess að við þurfum hvort sem er (Forseti hringir.) að horfa á það allt upp á nýtt ef fleiri og fleiri fara að keyra um á rafbílum. Þá molnar undan því fjármögnunarkerfi sem við erum með í dag með álagningu á eldsneyti.