149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

158. mál
[16:16]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Flutningsjöfnun sem þessi getur verið mjög til góða fyrir atvinnulíf úti um landsbyggð og fjarri mörkuðum. En við þekkjum líka dæmi þess að greiðslur í slíkri flutningsjöfnun hafi verið helst til ríkulegar, jafnvel svo að flutningsgreiðslur séu hærri en nemur flutningskostnaði. Við vitum að sú var raunin í flutningsjöfnun í sementsflutningum á sínum tíma sem þýddi að það var í raun og veru hagkvæmara að vera sem fjærst notanda við sölu á viðkomandi vöru.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra aðeins betur út í hvernig þessari flutningsjöfnun sé háttað. Er flutningskostnaður greiddur að fullu eða aðeins að hluta? Þetta getur skipt verulegu máli. Og í öðru lagi spyr ég, því að ég sé ekki í fljótu bragði að það komi fram í greinargerð frumvarpsins: Hver er áætlaður kostnaðarauki ríkissjóðs af þessari breytingu?