149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

158. mál
[16:19]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir ágæta yfirferð yfir þetta mál. Um er að ræða jafnréttis- og byggðamál til að styrkja atvinnutækifæri úti á landi. Markmiðið, eins og fram kemur í greinargerð, er að stuðla að bættri nýtingu þeirra fjármuna sem lagðir eru til flutningsjöfnunarstyrkja með því að rýmka skilyrði þess að framleiðandi njóti slíkra styrkja. Þetta tel ég vera mjög jákvætt og eins þær girðingar sem settar eru inn í frumvarpið varðandi þak á greiðslum, að ekki sé hægt að fara upp fyrir ákveðna upphæð, og að hægt sé að jafna á milli svæða. Það er þá líka verið að bregðast við þeim gagnrýnisröddum sem telja að ekki hafi allir setið við sama borð, það er verið að útvíkka svæði, stækka svæði og það tel ég vera mjög jákvæða nálgun í þessu máli.

Ráðherra svaraði spurningum sem voru mér ofarlega í huga, kemur ekki á óvart að þær voru á svipuðum nótum og spurningar hv. 9. þm. Norðausturkjördæmis, Líneikar Önnu Sævarsdóttur. Það er komið hér fram.

Ég held að þetta sé mjög gott mál. Þetta fellur líka að byggðaáætlun og jafnrétti til búsetu og öðru slíku. Við erum þá, ef tilgangurinn nær fram, að stækka styrkhæf svæði og fjölga styrkhæfum umsóknum. Það tel ég mjög jákvætt mál. Í þetta verður kafað og sú vinna byggð á þeim grunni sem til er í skýrslum og rannsóknum sem gerðar hafa verið. Ég bind vonir við að þetta muni áfram styrkja atvinnuuppbyggingu og atvinnulíf úti um allt land og þar með samfélögin, íbúana og heimilin. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps.