149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

deilur Rússa við Evrópuráðið.

[15:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þingmaðurinn fór hér yfir stöðu sem við þekkjum. Ég átti fund með Thorbjørn Jagland í New York fyrir nokkrum vikum síðan þar sem hann setti mig inn í þessi mál. Á þessum tímapunkti höfum við ekki tekið neina ákvörðun um hvernig við bregðumst við eða hvort rétt sé að við göngum inn í samskipti Rússa og Evrópuráðsins. Thorbjørn Jagland þekkir vel til Íslands og vildi tala við okkur m.a. út af þeirri stöðu sem þarna er komin upp. Hún er alvarleg og óheppileg. En við höfum ekki sest sérstaklega niður núna eftir þá atburði sem hv. þingmaður vísar til. Ef ég skil hv. þingmann rétt er komin ákveðin ögurstund í þessu máli. En hins vegar munum við gera það sem við getum til þess að styðja Evrópuráðið og ég er sammála því að það er ekki gott fyrir almenning í Rússlandi ef svona fer.

Málið er auðvitað mjög flókið og erfitt og tengist atburðum sem við þekkjum öll sem hafa haft miklu meiri áhrif en bara það sem snýr að Evrópuráðinu. Á þessum tímapunkti er svarið við fyrirspurninni einfaldlega þetta: Það er ekki komið á þann stað að við höfum tekið neina ákvörðun um slíkt enda hefur enginn farið fram á það við okkur að við göngum inn í málið.

Varðandi seinni spurninguna er mikilvægt að sjá til þess að Evrópuráðið geti sinnt hlutverki sínu. Eðli málsins samkvæmt þarf fjármuni til þess.