149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

rannsókn sjálfsvíga.

[15:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er rétt að halda því til haga að áhersla á þennan tiltekna málaflokk, þ.e. þennan hluta umræðunnar um geðheilbrigðismál sem lýtur að sjálfsvígum, fer vaxandi um heim allan. Það er meira að segja svo að á dögunum var settur sérstakur ráðherra í þessi mál í bresku ríkisstjórninni, þ.e. mál sem lúta að sjálfsvígum sem slíkum, bæði forvörnum og utanumhaldi um þennan mikilvæga málaflokk, þannig að hann er ofarlega á blaði víða.

Mér var nýlega afhent niðurstaða starfshóps sem fjallaði sérstaklega um aðgerðir sem væru til þess fallnar að stemma stigu við eða draga úr líkum á sjálfsvígum eins og nokkurs er kostur. Sú vinna var leidd af embætti landlæknis og utanumhaldið utan um þá aðgerðaáætlun er þar. Meðal annars er þar vikið að því að hluta sem hv. þingmaður nefnir, sem er ítarlegri skráning og greining á því sem er á ferðinni en ekki síður áhersla almennt á forvarnir sem varða geðheilbrigðismál almennt. Því að sjálfsvíg eru oft endapunktur á mjög alvarlegum geðsjúkdómi og þess vegna er mikilvægt að við höldum vöku okkar að því er varðar forvarnaþáttinn og lýðheilsuþáttinn.

Ég tók við aðgerðapakka frá starfshópi þar sem þeir eru samankomnir sem þekkja best til þessara mála. Í stuttu máli sagt styð ég og fellst á allar þær aðgerðir sem þar voru lagðar til og lagði til sérstakt fjármagn á þessu ári til þess að ýta þeim úr vör. Ég fer nánar yfir það í mínu síðara svari.