149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

áfengisauglýsingar.

116. mál
[17:24]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka fyrir umræðuna sem ég held að sé mjög tímabær. Ég þakka bæði fyrirspyrjanda, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, og hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Mér þykir áhugavert að velta því upp að þótt við séum með bann við því að auglýsa löglega vöru, eins og áfengi er, þá held ég að alveg ljóst sé miðað við þær sögur og fréttir og kvartanir sem hafa borist að töluvert er um áfengisauglýsingar með einhverjum hætti, þrátt fyrir það ágæta bann.

Ég var aðeins að gúgla og sá t.d. umræðu um Egils Gull mótið, golfmót, og ekki þarf annað en að horfa á vinsæla þætti, hvort sem það er á netinu, í sjónvarpi, á snapchat eða öðrum samskiptamiðlum, áfengi kemur oft fyrir. Þá má velta fyrir sér: Stenst slíkt bann þær kröfur sem við gerum í nútímasamfélagi með öllum þeim samskiptamiðlum sem við höfum?