149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Um þessar mundir eru verkalýðsfélögin að leggja fram kröfugerð sína vegna kjarasamninga sem eru lausir í lok þessa árs eða upphafi þess næsta. Krafan um styttri vinnuviku hefur verið þar áberandi, bæði sem beint kjaramál en einnig vegna áhrifanna á hamingju og velferð fjölskyldna almennt. Flokksráð VG samþykkti um síðastliðna helgi ályktun um styttingu vinnuvikunnar ásamt fleiri ályktunum sem snúa að launa- og kjaramálum. Skoðum aðeins betur styttingu vinnuvikunnar.

Undirritaður hefur í mörg ár talað fyrir þessari leið sem mikilvægri samfélagslegri breytingu auk þess ávinnings sem er augljós fyrir almenning. Sú áhersla sem að undanförnu hefur aukist á umhverfisvænni lífshætti, minna vistspor og neyslu auk þess að hvetja til nýtingar frekar en sóunar, er einnig áberandi í þessum hugmyndum.

Veltum fyrir okkur hvort einstaklingur sem hefur minni vinnuskyldu er ekki líklegri til að nota umhverfisvænni aðferðir við að koma sér til og frá vinnu. Skoðum hvort fjölskylda sem hefur meiri tíma saman er ekki líklegri til að hreyfa sig meira, ganga á milli staða, ganga út í búð frekar en keyra, elda frá grunni frekar en kaupa unnar matvörur vegna tímaskorts. Myndum við gefa okkur tíma til að endurvinna í meira mæli, gera við hluti sjálf og jafnvel að læra það? Myndum við gefa okkur til að rækta okkar eigið grænmeti eða gera okkur ferð gangandi eða hjólandi til að kaupa umhverfisvænni vörur? Stytting vinnuvikunnar gæti þarna orðið hvati fyrir grænan hagvöxt. Gefum okkur tíma til að njóta náttúrunnar í meira mæli og öðlast þannig dýpri skilning á gildi hennar og mikilvægi.

Ef við svörum þessum spurningum játandi ætti það að hvetja okkur til að berjast af krafti fyrir styttri vinnuviku og taka þannig undir þessa sjálfsögðu kröfu verkalýðshreyfingarinnar.