149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Um hvað ætla ég að tala hér í dag? Af hverju ekki að tala um þá sem senda okkur þingmönnum bréf, skeyti, tölvupósta, SMS og áhyggjur sínar? Þannig er að sem þingmaður fær maður orðsendingar frá fólki úti í samfélaginu og við erum svo heppin að það er talsvert um að fólk er að benda á ýmislegt sem betur má fara.

Það má greina á þessum póstum að það er enn afskaplega mikil reiði í samfélaginu eftir bankahrunið og aðstæður fjölda fólks eru enn afar bágbornar, bæði þess vegna og einnig almennt. Við megum ekki gleyma því að nær 10.000 heimili fóru í gegnum nauðungarsöluferli á árunum eftir hrun, fyrir utan þá fjölmörgu sem þurftu að yfirgefa heimili sín eftir samninga við lánastofnanir. Þau sár eru mörg hver ógróin.

Þessar orðsendingar bera það margar hverjar með sér að fólk upplifir sig í reiðileysi í kerfinu, fær hvergi svör, úrlausnir eða hjálp. Einn sendandi hefur í næstum sex ár sent okkur öllum þingmönnum, starfsmönnum í stjórnsýslunni og dómstólunum pósta vikulega, neyðarkall um hjálp. Það er mikilvægt að hlusta á fólk og ef unnt er hitta þessa aðila og heyra milliliðalaust um áhyggjur þeirra, vandamál og baráttu.

Herra forseti. Það er eins augljóst og ég stend hér að það á eftir að gera upp afleiðingar bankahrunsins á þann hátt að fórnarlömbum þess verði gerð fullkomin skil á aðgerðaleysi stjórnvalda í garð þeirra sem gleymdust þegar verið var að endurreisa fjármálakerfið, því að fjármálakerfið var endurreist en ekki þau fjölmörgu heimili og fjölskyldur sem urðu undir þungavinnuvélum lánastofnana á þessum tíma.

Það er ekki í boði að stinga hausnum í sandinn.