149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar aðeins að vitna í Kim Larsen, með leyfi forseta:

„Jeg kan ikke forstå, hvad en regering skal gøre godt for, hvis det ikke er for at hjælpe de svage. De stærke skal sgu nok klare sig.“

Eða svo ég þýði það yfir á íslensku:

„Ég skil ekki til hvers ríkisstjórn er ef ekki til að hjálpa þeim sem minna mega sín. Þau sterku munu bjarga sér.“

Foreldrar eru framkvæmdastjórar barna sinna. Þeir eiga að passa upp á að þeim vegni vel, að þau fái þá aðstoð sem þau þurfa. En hvað ef örðugleikar koma upp? Við sem foreldrar eigum að vernda börnin okkar og gera allt sem við getum til að þeim vegni vel. Hvað ef foreldrarnir hafa ekki kost á að tryggja velferð barna sinna? Hvert er þá öryggisnetið?

Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem einungis börn þeirra vel lesnu og ákveðnu fá nauðsynlega þjónustu. Það á ekki að bitna á börnum ef foreldrarnir eru ekki í stakk búnir til að berjast fyrir réttindum þeirra. Það á ekki að vera falið hver réttindi okkar eru og það á ekki að vera þannig að við þurfum að lesa í gegnum lagabálka til að berjast við kerfið.

Kerfið á að þjónusta börn, upplýsa um vellíðan þeirra og tryggja þarf jafnan rétt og aðgengi að lífsgæðum sem í boði eru án tillits til efnahags, fötlunar, móðurmáls, fjölskyldugerðar eða félagslegrar stöðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)