149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Bæði heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra, sem eru því miður ekki viðstödd þessa umræðu, hafa lýst þeirri skoðun sinni að þau telji heppilegra að ráðuneytinu verði skipt upp og sjá mikla kosti í því. Ég taldi einhverja þeirra upp í ræðu minni.

Hvernig á að tryggja samráð milli ráðherra um þessi mikilvægu málefni? Ég held að það sama eigi í raun við hvert sem við lítum. Við erum ekki með fjölskipað stjórnvald á Íslandi. Samráð milli ráðuneyta er verkefni sem við höfum verið að vinna að á undanförnum árum. Ég nefni sem dæmi ráðherranefnd um samræmingu mála, mjög þjált nafn, sem forsætisráðherra fer fyrir og getur í raun kallað hvaða ráðherra sem er til samráðs um málaflokka. Ég sæi fyrir mér að til að tryggja þetta samráð væri eðlilegt að sett væri á laggirnar ráðherranefnd sem tæki sérstaklega á þeim málaflokkum sem hér eru undir þannig að það sé tryggt. Þó að við séum ekki fjölskipað stjórnvald tel ég að fyrir stjórnsýslu okkar sé svo mikilvægt að ráðuneytin vinni saman, að ekki séu múrar á milli ráðuneyta, sem (Forseti hringir.) ég held að við þekkjum alveg sem höfum kynnst stjórnsýslunni að eru því miður oft til staðar.