149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[16:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Um er að ræða sannkölluð tímamót fyrir íslenskar bækur. Á dögunum kynntum við aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu til framtíðar. Ein af þeim mikilvægustu tengist hjartans máli margra hér í salnum, íslenskum bókum og læsi þjóðarinnar.

Bókaútgáfa er ein af mikilvægustu stoðum íslenskrar menningar og er gildi hennar fyrir þróun tungumálsins óumdeilt. Lestrarfærni er lykillinn að lífsgæðum okkar og bækur grundvöllur símenntunar alla ævi. Kveðið er á um stuðning við útgáfu bóka á íslensku í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og hér í dag tala ég fyrir frumvarpi sem mun marka þáttaskil fyrir íslenska bókaútgáfu til hagsbóta fyrir lesendur, rithöfunda og aðra sem vilja veg íslenskunnar sem mestan.

Með frumvarpinu, sem samið er í fjármála- og efnahagsráðuneyti, að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneyti, er lagt til að komið verði á fót kerfi sem heimilar endurgreiðslu 25% kostnaðar vegna útgáfu á íslensku að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ráðgert er að verja um 400 millj. kr. frá og með næsta ári. Sú leið var valin fram yfir fyrri hugmyndir um afnám virðisaukaskatts á bækur vegna þess að hún er árangursríkari og skilvirkari. Starfshópur fjármála- og efnahagsráðuneytisins mat þá kosti sem uppi voru og var niðurstaða þeirra sú að endurgreiðsluleiðin væri betur til þess fallin að ná því markmiði að efla útgáfu íslenskra bóka. Fordæmi fyrir slíkri stuðningsleið má m.a. finna í tímabundnum stuðningi við kvikmyndir og hljóðritun sem hefur gefist vel.

Meginmarkmið frumvarpsins er því að styðja við og efla útgáfu á íslensku vegna menningarlegs mikilvægis bókaútgáfu fyrir þróun íslenskrar tungu. Íslenskan er okkar þjóðtunga og opinbert mál og stjórnvöldum ber að tryggja að unnt sé að nota hana á öllum sviðum þjóðlífsins.

Bóksala á Íslandi hefur dregist saman og nemur veltusamdráttur bókaútgáfu hérlendis um 40% á síðustu tíu árum. Þessu hafa íslenskir rithöfundar og bókaútgefendur sannarlega fundið fyrir. Ástæðurnar má einkum rekja til breyttrar samfélagsgerðar, örrar tækniþróunar og annarra þjóðfélagsbreytinga. Tilkoma ýmiss konar afþreyingarefnis, aukið framboð lesefnis og myndefnis á netinu gegn lágu eða engu endurgjaldi, snjalltækja eða annarra miðla hefur leitt til þess að lestur bóka á íslensku hefur dregist verulega saman. Sú þróun er mikil áskorun fyrir tungumál fámennrar þjóðar.

Það er ekki síst á herðum íslenskra útgefenda að bregðast við breyttum aðstæðum og þróa sína útgáfu, að hún mæti betur lesendahópi dagsins í dag. Þessari aðgerð er ætlað að hvetja til aukinnar útgáfu bóka á íslensku á prenti og/eða rafrænum miðlum og auka þannig framboð fjölbreytts efnis fyrir íslenska lesendur. Það er algjört grundvallaratriði. Til að stuðla að bættu læsi þurfa allir aldurshópar og ekki síst börn og ungmenni að geta nálgast áhugavert og fjölbreytt lesefni á íslensku.

Stuðningur af þessu umfangi mun auka mjög svigrúm íslenskrar bókaútgáfu og hafa jákvæða keðjuverkun í för með sér fyrir þá sem að henni koma. Þessi aðgerð markar tímamót fyrir íslenskt mál og íslenskar bækur. Við ætlum að efla læsi í landinu. Þetta er ein af lykilaðgerðum sem að því lúta að efla útgáfu bóka á íslensku.

Með stuðningnum er hvatt til ritunar bóka á íslensku án frekari skilyrða um tegund bóka að öðru leyti en því sem kveðið er á um í 2. mgr. 5. gr. Þannig er stuðlað að því að halda tungumálinu í lifandi notkun, koma nýjum hugverkum á íslensku á framfæri og efla læsi á íslenskri tungu. Önnur skilyrði sem tilgreind eru í 5. gr. frumvarpsins lúta að kröfum sem gerðar eru til útgefanda og lágmarksfjárhæð endurgreiðsluhæfs kostnaðar.

Svo að því sé haldið til haga ná skilgreiningar frumvarpsins á hugtakinu bók yfir fjölbreytt svið, þar með talið myndasögur í bókaformi. Því geta aðdáendur Tinna, Svals og Vals og Lukku-Láka dregið andann léttar, því að þeir félagar falla einnig undir frumvarpið.

Samkvæmt frumvarpinu skal beiðni um endurgreiðslu berast til sérstakrar þriggja manna nefndar í síðasta lagi níu mánuðum eftir útgáfu bókar sem metur hvort skilyrði fyrir endurgreiðslu séu uppfyllt. Beiðninni skulu fylgja nauðsynleg gögn sem gefa glögga mynd af kostnaði bókar ásamt fylgigögnum, svo sem sundurliðuðu bókhaldi um þann kostnað sem fellur til. Ef endurgreiðslufjárhæðin er hærri en 12 milljónir skal kostnaðaruppgjör jafnframt vera staðfest af endurskoðanda, skoðunarmanni reikninga umsækjanda eða viðurkenndum bókara. Í kjölfarið er tekin ákvörðun um endurgreiðslu sem byggist á innsendu kostnaðaruppgjöri.

Lagt er til að ákvörðun nefndar um stuðning við bókaútgáfu á íslensku, samkvæmt 8. gr., sé kæranleg til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þá skal ákvörðun nefndar um hvað telst vera endurgreiðsluhæfur kostnaður og hvort fullnægjandi gögn liggi að baki kostnaði vera kæranleg til yfirskattanefndar.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er lagt til að stuðningur við útgáfu bóka á íslensku taki gildi frá ársbyrjun 2019 og verði tekinn til endurskoðunar fyrir 31. desember árið 2023. Afmörkun tímabilsins er í samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins. Lagabreytingar þær sem gerðar eru í frumvarpinu, um beinan stuðning við bókaútgefendur sem gefa út bækur á íslensku, fela í sér ný útgjöld fyrir ríkissjóð. Sé miðað við ársreikninga og skattframtöl fyrirtækja í bókaútgáfu má ætla að kostnaður ríkissjóðs vegna stuðningsins verði á bilinu um 300–400 millj. kr. miðað við 25% endurgreiðslu. Byggist það mat á gögnum Hagstofu Íslands um rekstrarafkomu fyrirtækja sem skráð eru í bókaútgáfu, upplýsingum úr skattframtölum frá ríkisskattstjóra og ársreikningum stærstu bókaútgefenda.

Kostnaður vegna nefndar um stuðning við bókaútgáfu á íslensku við afgreiðslu umsókna gæti orðið einhver, einkum í upphafi árs 2019.

Stuðningur sem þessi mun auka svigrúm íslenskrar bókaútgáfu og hafa jákvæða keðjuverkun í för með sér fyrir þá sem að henni koma Ég er sjálf sannfærð um að þessi aðgerð sé til þess fallin að auka framboð, fjölbreytni og sölu á íslenskum bókum til framtíðar. Gera má ráð fyrir því að ábati neytenda muni felast í mögulegri verðlækkun bóka og fjölbreyttara úrvali, m.a. á rafrænum miðlum. Hvort tveggja er til þess fallið að hvetja til lestrar á íslensku og styðja þannig við íslenska tungu og menningu sem stuðlar að aukinni hagsæld fyrir allan almenning.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.