149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[17:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara spurningu hv. þingmanns er miðað við núverandi veltu. Það væri mjög jákvætt ef aðgerðin myndi örva og auka bókaútgáfu í landinu, eins og við vonumst til. Ég lít þannig á að við séum, ekki aðeins með þeirri aðgerð heldur fleiri aðgerðum, að draga línu í sandinn að segja: Þessi þróun er ekki æskileg. Við erum bókaþjóð. Allur okkar arfur, menningararfur, kemur þaðan. Mér finnst mjög brýnt að við förum í þetta eins og við erum að gera. Ef það verður til að þess að bókaútgáfa eykst verulega er það jákvætt vandamál að takast á við. Þá sjáum við að aðgerðin ber svo sannarlega árangur. Við tökum á því, hv. þingmaður, þegar að því kemur.