149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi áðan í einu af andsvörum mínum áttum við mjög gott samtal við rithöfunda stuttu eftir að frumvarpið leit dagsins ljós. Ég tel mjög mikilvægt að hlustað sé á athugasemdir þeirra en ég er alveg sannfærð um að þarna fara saman hagsmunir bæði bókaútgefenda og rithöfunda, vegna þess að þetta er talsverð innspýting ef við lítum á veltutölur. Ég tel að þetta sé þannig aðgerð að hún muni gagnast báðum aðilum mætavel.

Virðulegi forseti. Ég vil nefna eitt af því sem skiptir mjög miklu máli sem er að við sjáum að lesskilningi barnanna okkar hefur hrakað í alþjóðlegum samanburði frá árinu 2000. Ég á svolítið erfitt með að trúa því þegar ég sé allt það mikla og kraftmikla starf sem fer fram á mismunandi skólastigum. Ég tel að inneignin sé í raun og veru meiri en kemur fram í alþjóðlegum könnunum. Hins vegar getum ekki litið fram hjá því og þess vegna miðar aðgerðin að því að auka og örva áhuga á lestri. Lestur skiptir okkur öll miklu máli, sama hvað við erum að gera, sama hvað við tökum okkur fyrir hendur. Ég held líka að í ljósi samfélagslegra og tæknilegra breytinga sé enn mikilvægara fyrir fólk að geta gagnrýnt efnið sem það er með fyrir framan sig, hvort sem það er á rafrænu formi eða hvernig svo sem það er. Djúpur lesskilningur skiptir mjög miklu máli til að efla það lýðræðissamfélag sem við búum í.