149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið en langar að gera athugasemdir við það. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður átti sig alveg á umfangi frumvarpsins. Hér er ekki einvörðungu um að ræða prentaða bók heldur erum við líka að tala um hljóðbók, rafræna bók, alla útgáfu á hinu ritaða máli sem flokkast undir skilgreiningu bókar. Ef hann hefur áhyggjur af því að við séum aðeins að fjalla um hina prentuðu bók í frumvarpinu er ekki svo. Við lítum einmitt til framtíðar og hugum að fleiri útgáfuformum. Ég tel að hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hafi farið ansi ítarlega yfir tilgang og hlutverk bókaútgáfunnar, hversu mikilvæg hún er. Þess vegna förum við þessa leið, líkt og við gerðum með kvikmyndaframleiðslu.

Ég er sannfærð um að áhersla á að styðja við íslenskt mál og fara yfir stöðu lesskilnings sé þegar farin að hafa áhrif. Það er ákveðin örvun í gangi á þeim markaði. Ég held að hv. þingmaður þurfi að átta sig á því að við sjáum, eins og ég hef nefnt áður, að lesskilningi unga fólksins hefur hrakað. Ég vil að við séum fremst á meðal annarra þjóða hvað það varðar. Það er ekki hægt að vera í þeirri stöðu sem ég er í án þess að líta til aðgerða og þess hvernig við getum styrkt menntakerfið. Ég tel að þetta sé einn liður í því.