149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

178. mál
[18:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 181, máli nr. 178. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Frumvarpið felur í sér að 6. gr. laganna er breytt þannig að fallið er frá ófrávíkjanlegri kröfu um vald dýralækna í opinberri þjónustu á íslenskri tungu. Þess í stað þykir rétt að heimilt sé að gera þá kröfu ef slík kunnátta er talin nauðsynleg í starfi. Tilefni þessarar breytingar er einkum álit umboðsmanns Alþingis nr. 9510/2017. Athugun umboðsmanns beindist m.a. að því hvort það samræmdist lögum sem gilda um starfsemi Matvælastofnunar að stofnunin réði til eftirlitsstarfa dýralækna sem ekki hafa vald á íslenskri tungu. Varð það niðurstaða umboðsmanns að slíkt væri ekki í samræmi við 5. mgr. 6. gr. laganna. Í álitinu vekur umboðsmaður athygli á ákvæðum laga nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt 1. gr. laganna hafa ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 492/2011, um frjálsa för launafólks innan sambandsins, eins og henni var breytt með ákvæðum EES-samningsins, lagagildi hér á landi.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkja skuli ekki gilda í þeim tilvikum þar sem þau takmarka umsóknir um og framboð á atvinnu eða rétt erlendra ríkisborgara til að hefja og stunda atvinnu eða setja þeim önnur skilyrði en þau sem gilda um þeirra eigin ríkisborgara. Þetta eigi þó ekki við í þeim tilvikum sem tungumálakunnátta skiptir máli vegna eðlis starfsins sem um er að ræða. Bendir umboðsmaður á að reglugerðarákvæðið kunni að hafa þýðingu um réttindi dýralækna sem hafa ekki vald á íslenskri tungu til að starfa hér á landi í opinberri þjónustu ef til stendur að ráða í starf þar sem íslenskukunnátta skiptir ekki máli vegna eðlis starfsins.

Með lagasetningunni er þess einnig gætt að Matvælastofnun geti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu þar sem upp hafa komið þær aðstæður að ekki hefur reynst mögulegt að manna stöður til samræmis við fyrrgreint skilyrði. Af þessum sökum þykir mikilvægt að koma starfsemi stofnunarinnar í lögmætt horf og fella brott skilyrði um vald á íslenskri tungu en veita frekar heimild til að gera þá kröfu ef þurfa þykir.

Við gerð frumvarpsins var leitað upplýsinga, m.a. hjá landlækni, um þær kröfur sem gerðar eru til heilbrigðisstarfsmanna, samanber lög nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, og reglugerðir þar um. Hvorki í fyrrgreindum lögum né reglugerðum er gerð skýlaus krafa um að heilbrigðisstarfsmenn hafi vald á íslenskri tungu en til þess er hins vegar heimild, samanber 4. málslið 3. mgr. 5. gr. laga nr. 34/2012. Við veitingu starfsleyfis erlendra heilbrigðisstarfsmanna leggur landlæknir svo mat á það hvort gera eigi t.d. kröfu um íslenskukunnáttu. Þykir það skjóta skökku við að strangari kröfur séu gerðar til dýralækna í opinberri þjónustu samkvæmt lögum en t.d. lækna sem starfa á Landspítalanum.

Fyrirhugað er að í kjölfar þeirrar lagabreytingar sem um ræðir í þessu frumvarpi verði sett í reglugerð nánari viðmið um það hvenær gerðar verði kröfur um íslenskukunnáttu hjá erlendum dýralæknum en brýnt þykir að koma starfsemi Matvælastofnunar í lögmætt horf og fella brott skilyrði um vald á íslenskri tungu til þess að stofnuninni verði t.d. gert kleift að ráða til sín erlenda dýralækna tímabundið vegna sláturtíðar án þess að brjóta lög.

Frumvarpið var sett í opið samráð á samráðsgátt Stjórnarráðsins 24. ágúst til 2. september 2018 og alls bárust fimm umsagnir. Í umsögnunum var almennt lagst gegn fyrirhugaðri breytingu og lögð áhersla á mikilvægi þess að dýralæknar hafi vald á íslenskri tungu þar sem þörf er á. Ákveðins misskilnings virtist gæta í hluta umsagna þess efnis að ef yrði af umræddri lagabreytingu yrði Matvælastofnun ekki bundin við lög nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu, eða almenn sjónarmið stjórnsýsluréttar um að viðskiptavinir stofnunarinnar geti notað íslensku í viðskiptum sínum við stofnunina. Verði þetta frumvarp óbreytt að lögum verður Matvælastofnun samt sem áður bundin af fyrrgreindum lögum nr. 61/2011. Enn fremur er sú tillaga sem fram kemur í frumvarpinu sambærileg tillögu sem fram kemur í skýrslu starfshóps um endurskoðun löggjafar um dýrasjúkdóma og dýralækna frá október 2017 þar sem mælt er fyrir undanþágu frá íslenskukunnáttu dýralækna í opinberri þjónustu í þeim störfum þar sem ekki er brýn þörf á henni. Má geta þess að almenn sátt var um efni skýrslunnar og samanstóð starfshópurinn af fulltrúum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Bændasamtaka Íslands, Dýralæknafélagi Íslands og Matvælastofnunar.

Líkt og hér hefur verið rakið er samkvæmt gildandi lögum gerð sú krafa að dýralæknar sem starfa í opinberri þjónustu hafi vald á íslenskri tungu. Af framangreindu leiðir að því verður ekki breytt nema með setningu laga. Með lagasetningunni yrði þess gætt að Matvælastofnun gæti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu, auk þess sem gætt er að þeim skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur tekið á sig vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Afleiðingar af samþykkt frumvarpsins hljóta að teljast almenningi og stjórnsýslu ríkisins til hagsbóta þar sem tryggt verður að Matvælastofnun geti sinnt sínu lögbundna eftirlitshlutverki er varðar t.d. frumframleiðslu, úrvinnslu og markaðssetningu landbúnaðarafurða.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því en þar er ítarlega fjallað um efni þess. Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.