149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að vekja athygli á brýnu úrlausnarefni. Það mun hljóma eins og verið sé að spila gamla plötu, en á landinu eru 30–40 svokallaðar megineldstöðvar, þ.e. eldfjöllin sem gjósa oft. Fimm eru í undirbúningsfasa af virkni þeirra að dæma. Það er svolítið sport að fara yfir það hver kunni að láta fyrst á sér kræla, menn veðja jafnvel um það. Það er reyndar ekkert grínmál en það eru engin vísindaleg rök sem geta komið þar gagni, ekki í bili.

Í þessum hópi er Katla og það eru ekki ný tíðindi. Það beinir sjónum okkar að varnargarði sem er fyrir austan Vík og þið þekkið væntanlega öll. Ég hef margoft rætt það og skrifað um að það þarf að hækka hann. Það hafa engar aðgerðir orðið í þeim efnum og nú eru heimamenn líka farnir að þrýsta á og reyndar fleiri vísindamenn.

Mér finnst rétt að koma hér með áskorun til þingmanna og þá einkum þriggja ráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fjármálaráðherra og umhverfisráðherra, og auðvitað Vegagerðarinnar, að þarna verði snarlega búinn til samvinnuhópur ásamt öðrum sérfræðingum til þess að hefja aðgerðir nú þegar í vetur. Það þarf að hækka þá grjótvörn, eða öllu heldur malarvörn sem þarna er, um marga metra. Það þarf að klæða hana að framanverðu með duglegri grjótvörn og tryggja það, ef Kötluhlaup leggst til vesturs, að byggðin verði í sem allra minnstri hættu. Þetta er stór aðgerð, ég veit það, á okkar mælikvarða, en þó ekki stærri en svo að við eigum að geta ráðið við hana. Það er jú þannig að öryggi fjölda fólks gengur fyrir og ábyrgð á því öryggi er mjög þungvæg, ekki satt?