149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Að öðru. Fyrir tæpum mánuði sótti ég landkönnunarhátíðina á Húsavík þar sem mikið var rætt um landkönnun almennt og sér í lagi um möguleikann á geimrannsóknum á Íslandi. Þar var saman kominn stór hópur merkra manna og kvenna nútímans og framtíðarinnar og voru allir á einu máli um mikilvægi þess að Ísland ætti að marka sér góða stöðu í þeim vettvangi. Rökin eru margvísleg. Fyrstu og mikilvægustu rökin eru mikilvægi þess að allir sem alast upp á Íslandi fái tækifæri til þess að sýna hvað í þeim býr við að búa til spennandi tækifæri til framtíðar. Nauðsyn þess að hvetja börn til þess að fara í vísinda- og tækninám eða iðnaðar- eða verkfræðigreinar og byggja upp rannsóknir og framleiðslu er rosalega skýr. Í því liggur grundvöllur þess að geta unnið á sviði jarðfræði, líffræði, efnisfræði, sjálfvirknivæðingar og fleiri greina þar sem Ísland hefur mikla möguleika til að skara fram úr.

Eftir því sem mannkynið leitar út fyrir heimili sitt hér á jörðinni og til tunglsins, Mars og víðar mun þekking á þessum sviðum skipta lykilmáli. Þá telst Íslandi það til tekna að víða í íslenskri náttúru er finna efnislegar hliðstæður við tunglið og Mars sem nýta má í rannsóknartilgangi.

Viðskiptatækifærin eru mjög mörg. Möguleikarnir á þróun eru mjög margir, bæði Geimferðastofnun Evrópu, ESA, og Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, eru með verkefni á Íslandi um þessar mundir. Fyrirtækið Planet rekur líka fjórar jarðstöðvar fyrir gervihnattakerfi sitt og starfa ýmis fleiri fyrirtæki tengd þessum merka iðnaði hér á landi.

Næsta skrefið er að sjálfsögðu að Ísland gangi í Evrópsku geimferðastofnunina sem Alþingi hefur nú þegar tekið ákvörðun um að skuli gera og hefur falið hæstv. utanríkisráðherra að ganga frá því og ákveða þannig að Íslendingar verði þátttakendur en ekki áhorfendur í næsta fasa mannkynssögunnar.