149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[16:28]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ferðamálaráðherra fyrir kynningu á skýrslunni og fyrirhuguðum viðbrögðum. Þessi skýrsla er ágætt skref í umræðunni um þolmörk ferðamennsku á Íslandi en því miður að mörgu leyti takmarkað skref sömuleiðis því eins og kemur fram í lokahluta skýrslunnar þá rekum við okkur enn og aftur á það í umræðum um ferðaþjónustu að það eru hreinlega ekki til upplýsingar og algjör skortur á yfirsýn.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan þá er í skýrslunni gengið svo langt að segja, með leyfi forseta:

„Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á áhrifum ferðamennsku og ferðaþjónustu á líf og lífsgæði heimamanna á Íslandi hafa farið fram með ómarkvissum hætti. Í sumum landshlutum, svo sem á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og á Suðurnesjum, hefur enginn áfangastaður verið rannsakaður sérstaklega með tilliti til félagslegra þolmarka ferðamennsku. Í mörgum tilfellum er byggt á veikum vísindagrunni og rannsóknaraðferðir og niðurstöður ekki tengdar við nýjar erlendar rannsóknir í faginu og þá þekkingu sem þar er fyrir.“

Í ofanálag eru rannsóknirnar sagðar flestar gamlar og því erfitt að fullyrða um núverandi stöðu.

Við hljótum þó öll að vera sammála um mikilvægi þessa skrefs og þessarar umræðu og ég skora á ráðherra og styð hana í því að óska eftir enn auknu fjármagni í rannsóknir á ferðamennsku á Íslandi til að við getum raunverulega farið að meta þolmörk hennar. Því miður er ekki að sjá mikinn vilja til þess í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2019 en þar er til að mynda gert ráð fyrir að framlög til Rannsóknamiðstöðvar ferðamála standi í stað.

Herra forseti. Síðasta vor var ég málshefjandi að umræðu um skemmtiferðaskip. Í umræðunni boðaði hæstv. ferðamálaráðherra umfjöllun um skemmtiferðaskipin í skýrslunni sem við fjöllum hér um í dag. Það voru því nokkur vonbrigði að lesa skýrsluna og sjá að umfjöllun um þau er í raun fyrst og fremst samantekt um fjölda skipa, farþega og áfangastaða en lítil sem engin tilraun gerð til þess að greina eða meta ástandið.

Raunar fer meginhluti kaflans um álag vegna skemmtiferðaskipa í að ræða skort á talningastöðum á landinu. Það er því miður ekki hægt að halda því fram að þessi skýrsla svari neinum af þeim spurningum sem hæstv. ráðherra boðaði svör við, sem er miður því að skemmtiferðaskipaferðamennska er í eðli sínu líkleg til þess að ganga nærri bæði félagslegum og umhverfislegum þolmörkum. Það hefði verið gagnlegt að sjá ítarlegri umfjöllun um þessa tegund ferðamennsku og tillögur til úrbóta þannig að hægt sé að byggja þá tegund ferðamennsku áfram upp.

Í raun má segja að skýrslan sé ákveðinn áfellisdómur yfir stjórnsýslu ferðamála á Íslandi. Í henni kemur fram að mörg svæði beri merki um skort á stýringu, vörslu og vöktun og þrátt fyrir að við séum hér að tala um rúmlega hálfs árs gamla skýrslu þá bólar lítið á viðbrögðum enn sem komið er nema jú, enn fleiri skýrslur og fleiri greiningar á stöðu mála.

Er ekki kominn tími til þess að við förum í alvöruaðgerðir? Af hverju beitir hæstv. ráðherra sér ekki af meiri krafti fyrir uppbyggingu samgönguinnviða út um land allt? Af hverju er ekki sett meira fjármagn í markaðssetningu þeirra landshluta sem augsýnilega geta létt af álagi og geta tekið við auknum fjölda ferðamanna? Af hverju erum við enn í dag að markaðssetja og leggja áherslu á staði eins og Gullfoss, Geysi og Þingvelli? Ætti áherslan ekki öll að vera á að markaðssetja aðra staði og aðra landshluta en þann hluta Suðurlandsins og höfuðborgina þar sem ágangurinn er mestur og þolmörkum er náð?

Staðan er reyndar svo undarleg að það er enginn sem fjármagnar birtingar eða gerð markaðsefnis landshlutanna í dag nema landshlutarnir sjálfir, sveitarfélögin. Nokkuð sem hljómar undarlega með tilliti til þeirrar áherslu sem hefur verið lögð á dreifingu ferðamanna um landið, a.m.k. í orði. Ekki má nota fjármagn það sem kemur til markaðsstofanna í gegnum Ferðamálastofu í markaðssetningu.

Herra forseti. Stóra niðurstaða skýrslunnar er að þolmörkum á nokkrum stöðum, einkum á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu, virðist hafa verið náð fyrir nokkru síðan. Hvað er hægt að gera í því? Í skýrslunni eru ýmsar ályktanir dregnar og tillögur gerðar m.a. um að setja viðmið um ásættanlegar breytingar og vinna að stefnu og stýringu fyrir áfangastaði, þ.e. að ákveða fyrir hvern landshluta hvaða svæði eigi að taka á móti fjölda ferðamanna og hvaða svæði eigi að verja fyrir ágangi ferðamanna.

Þá þarf að samhæfa betur áætlanir stofnana og samspil áætlana eins og hæstv. ráðherra kom inn á hér áðan. Þá er nefnt sérstaklega mikilvægi þess að móta eigendastefnu fyrir Isavia enda Ísland eins og allir vita eyja og því augljóst að tiltölulega auðvelt ætti að vera að stýra straumi erlendra ferðamanna inn í landið í gegnum flugvelli og hafnir.

Því miður virðist lítið vera að frétta af eigendastefnu fyrir Isavia. Minna virðist vera að frétta af uppbyggingu varaflugvalla Keflavíkurflugvallar, Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar, og því miður virðist enn minna vera að frétta af uppbyggingu þeirra sem aðrar gáttir inn í landið. Að minnsta kosti er ekki að sjá merki þess í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2019 og enn minni merki sjást um slíkt í fyrirliggjandi samgönguáætlun, þrátt fyrir fögur fyrirheit um að opna fleiri gáttir inn í landið og þrátt fyrir að vera verkefni samkvæmt byggðaáætlun. Þá er áframhaldandi vandi fyrirséður vegna ferðamanna sem koma til landsins á Seyðisfjörð með Norrænu en þar er mikill farartálmi á Fjarðarheiði og ekki á áætlun að hefjast handa við Fjarðarheiðargöng fyrr en seint og síðar meir.

Í því samhengi má nefna að það er áhugavert að skoða hvaða staðir það eru sem virðast hafa jákvætt viðhorf til ferðamanna og ferðaþjónustu í samanburði þá sem hafa það ekki. Flestir þeirra íbúa sem hafa jákvætt viðhorf virðast eiga það sammerkt að búa við góðar eða að minnsta kosti ásættanlegar samgöngur á meðan þeir sem hafa neikvætt viðhorf virðast búa við lélegar eða allt að því óásættanlegar samgöngur, hvort sem það er vegna skorts á almenningssamgöngum eins og hér á höfuðborgarsvæðinu eða vegna hreinlega lélegra vega eins og í kringum Mývatn.

Herra forseti. Stjórnvöld hljóta að þurfa í viðbrögðum sínum við þessari skýrslu að leggja áherslu á uppbyggingu innviða eins og samgangna og ekki síður að dreifa ferðamönnum betur um landið. Þetta er má segja skýr niðurstaða þessarar skýrslu og því þyngra en tárum taki að enn og aftur erum við ekki að nýta þær upplýsingar sem fyrir liggja í áætlanagerð, a.m.k. hvorki í fjárlögum né samgönguáætlun. Ég skora á því á þingheim að nota það vald sem þingheimur hefur og bregðast við því þótt Stjórnarráðið velji að gera það ekki.