149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[17:42]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um þolmörk ferðamennsku. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og að leggja hana fram hér til umfjöllunar. Vöxtur og aukið umfang atvinnugreinarinnar kallar á stefnumótun stjórnvalda og margvíslegar aðgerðir. Skýrsla eins og hér er sett fram er auðvitað ómetanlegt innlegg og nauðsynlegt að ræða hér á vettvangi þingsins. Við finnum sannarlega fyrir þeim áhrifum sem vöxtur ferðaþjónustu hefur á okkar samfélag. Hún hefur mikil hagræn áhrif sem speglast síðan í mikilli uppbyggingu, þjónustu og möguleikum til viðskipta, umsvifum og veltu í viðskiptalífi og auknum gjaldeyristekjum, en einnig finnum við fyrir auknu álagi á innviði og þörf fyrir hraðari uppbyggingu á því sviði en ella, t.d. á sviði samgangna. Við finnum líka fyrir aukinni umferð og ágangi á okkar vinsælustu og fjölförnustu ferðamannastaði.

Þess vegna er þessi skýrsla ákaflega mikilvæg. Það kemur fram hér að skýrslugerðin er að beiðni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem kom fram á 146. löggjafarþingi og ber að þakka fyrir þá beiðni. Eins og hér er rakið er skýrslan ekki lögð fram fyrr en nú, en það dregur ekki úr mikilvægi hennar. Skýrslan ber þetta heiti Þolmörk ferðamennsku, en ekki þolmörk í ferðaþjónustu. Af hverju er ég að draga það fram? Vegna þess að það er athyglisvert og ég vil meina að eitt af því sem er mjög vandað við þessa skýrslu er meðferð og skilgreining hugtaka. Lengi vel vorum við að kljást við merkingu orða í þýðingu heita á íslensku og ekki er langt síðan að á fræðasviðinu var lögð áhersla á að tala um ferðaþjónustu en ekki ferðamannaiðnað, sem er bein þýðing á enska heitinu „tourism industry“, en „industry“ merkir einmitt iðnaður um leið og það merkir atvinnugrein. Iðnaður felur síðan í sér umbreytingu á hráefni í endanlega vöru, en ferðaþjónusta felur í sér ferli, samskipti og þjónustuveitingu eins og nafnið bendir til.

Virðulegi forseti. Það sem þessi skýrsla dregur ekki síður svo ágætlega fram er hin huglæga upplifun gesta. Þá erum við komin að þessari vandasömu meðferð á hugtökunum þolmörk og sjálfbærni. Það er dregið vel fram í þessari skýrslu. Ég tel það afar mikilvægt og það er eitt af því sem ég tek úr þessari skýrslu inn í komandi stefnumótun og þróun þeirra verkfæra sem við þurfum að byggja upp til þess að takast á við þann ágang sem er merkjanlegur og við upplifum á okkar fjölförnustu ferðamannastöðum. Ef við ætlum að gera það með vitrænum og skynsamlegum hætti þá verðum við að byrja á því að átta okkur á því hvað hugtökin þýða, hvað þau fela í sér, annars verða verkfærin einskis nýt. Þess vegna tel ég mikilvægt að rýna skýrsluna ekki síst með tilliti til þessa og hvernig ferðaþjónustan getur, eins og stefnt er að, þróast með sjálfbærum hætti.

Hvað þýðir það í raun og veru? Það fer eftir samhenginu. Á bls. 34 er ágætis skilgreining á sjálfbærnihugtakinu. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna hér til þess:

„Sú þróun, sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum.“

Þetta er auðvitað ákaflega mikilvægt þegar við erum að þróa verkfæri sem eiga að tryggja þetta inn í framtíðina. Það er síðan betur gætt að þessari skilgreiningu og hvaða skilning við leggjum í þetta á bls. 45. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hugtök eins og sjálfbærni og þolmörk eru flókin viðfangs og stundum gagnrýnd fyrir að vera óljós og illmælanleg. Ef til vill er heppilegra að líta á sjálfbærni sem ferli en einhvers konar endanlegt ástand og óvíst að atvinnugrein geti nokkurn tíma orðið fullkomlega sjálfbær.“

Ef svo er, en við stefnum að sjálfbærni engu að síður, þá verðum við auðvitað að ákveða þegar við smíðum verkfæri um þolmörk í ferðaþjónustu, hvort sem þau eru huglægs eðlis eða áþreifanleg, hvað þetta merkir í okkar huga. Ég ætla að hrósa skýrsluhöfundum fyrir að nálgast þetta með vönduðum hætti.

Þolmarkahugtakið, af því ég er búin að fjalla hér um sjálfbærnihugtakið, er ekkert síður snúið viðfangsefni. Eins og kemur ágætlega fram í umfjöllun skýrslunnar þá er auðvitað ekki einvörðungu um að ræða ágang á náttúru og hversu mikið náttúran þolir áður en hún lætur á sjá, þegar spjöll verða, og fjölda gesta sem hún getur tekið við áður en svo verður. Huglægi þátturinn er ekki síður mikilvægur. Það er hvernig ferðamaðurinn, viðskiptavinurinn, upplifir þetta, hversu mikið augað þolir, hvenær þessi kyrrðartilfinning sem ferðamaðurinn leitar truflast eða sú tilfinning að vera umfram aðra að upplifa eitthvað sérstakt og ekki síður viðhorf okkar sem búum hér. Það er mikið til á okkar ábyrgð og ekki einvörðungu á fræðavettvangi að við förum vel með þessi hugtök í þeirri stefnumótunarvinnu sem við köllum svo sterkt eftir. Við sem landið byggjum erum líka ferðamenn um eigið land án þess að við setjum okkur í slíkar stellingar, heldur mótar upplifunin að einhverju marki þetta viðhorf. Þess vegna er mikilvægt að við vöndum okkur í þessari vinnu.

Skýrslan byggir að marki á þeim þolmarkarannsóknum sem þó hafa verið gerðar á nokkrum svæðum. Það er mjög áberandi, bæði í skýrslunni og í þessari umræðu um skýrsluna, að það er þörf á frekari rannsóknum til þess að við verðum í færum til þess að nýta þau verkfæri sem við mótum (Forseti hringir.) og hæstv. ráðherra lauk sinni framsögu á.

Ég vil hér í lokin þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir skýrsluna og umræðuna.