149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

staða krónunnar.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál, stöðu krónunnar. Ef við skoðum og berum saman stöðu Íslands til að mynda við evruríkin sjáum við að á undanförnum árum hafa lífskjör og laun hér á landi batnað mun hraðar en í evrulöndunum. Af hverju var það? Meðal annars vegna þess að krónan styrktist vegna tilkomu nýrrar stoðar undir efnahagslífið sem var ferðaþjónustan og þar með sáum við kaupmáttaraukningu langt umfram það sem gerðist á evrusvæðinu.

Veikingin núna kemur eftir töluvert langt tímabil mjög sterkrar stöðu krónunnar og hv. þingmaður leitar hér eftir skýringum mínum á þessari veikingu. Ég tel ekki að um sé að ræða eina einhlíta skýringu. Vissulega er það svo að umræða um stöðu flugfélaganna og sú staðreynd að ferðaþjónustan vex ekki eins hratt og áður — þar er ekki um samdrátt að ræða en vöxtur ferðaþjónustunnar er minni en áður hefur verið — spilar örugglega þar inn í.

Hv. þingmaður nefndi hér stöðu á vinnumarkaði. Auðvitað er ákveðin óvissa um stöðu á vinnumarkaði en af því að hv. þingmaður nefndi tengsl krafna aðila vinnumarkaðarins við þau tæki sem stjórnvöld hafa til þess að auka jöfnuð er hv. þingmanni jafn vel kunnugt um það og mér að það er nákvæmlega það sem við höfum verið að gera.

Hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í tengslum við fjárlög sem miða að því að hækka barnabætur, sem mun muna verulega um fyrir stöðu tekjulægri barnafjölskyldna, sem miða að því að hækka persónuafslátt umfram neysluvísitölu til þess einmitt að styðja við hina tekjulægri. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að mikilvægt sé að auka jöfnuð og að jöfnunarhlutverk skattkerfisins sé eitt af þeim hlutverkum sem við höfum í huga þegar við gerum skattkerfisbreytingar.

Ég tel hins vegar ekki, og er þar vafalaust ósammála hv. þingmanni, að þetta mál myndi leysast með því að ganga í Evrópusambandið.