149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

stuðningur við minkarækt.

[10:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ef ég hef sagt að von væri á aðgerðum vil ég fá tækifæri til þess að umorða það. Ég vonast eftir að við getum tilkynnt um eitthvað slíkt. Ég ítreka að við erum ekki komin að neinni niðurstöðu um hvort eða hvernig hægt væri að bregðast við. Málið er til umræðu, númer eitt, tvö og þrjú. Þá yrði það á slíkum forsendum hvort unnt væri að brúa einhvern tíma sem greininni yrði gefinn til að koma undir sig fótum á ný. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefndi að þegar best lét var þetta gríðarlega öflug grein og mikil velta, en það hefur kvarnast mjög ört úr þeim sem stunda þetta á síðustu árum. Til dæmis voru fimm burðarstólpar á síðasta ári sem hættu í loðdýrarækt vegna þess einfaldlega að þeir sáu ekki út úr augum fyrir vanda í rekstri. Þá standa eftir 17–18 bú sem verið er að ræða möguleika á hvort og þá hvernig væri hægt að mæta á einhvern tímabundinn hátt.