149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

fátækt.

[10:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ef hv. þingmanni fundust svörin rýr get ég sagt það að þau voru í ætt við spurningu hv. þingmanns. Ég fór hér yfir það starf sem stendur yfir í þessum samráðshópi og mér er kunnugt um afstöðu Öryrkjabandalagsins í þessum málum.

Þau hafa gert mjög vel grein fyrir henni. Ég átti fund með þeim síðast í gær, hv. þingmanni til upplýsingar, þar sem við fórum yfir nákvæmlega þessi sjónarmið sem snúast um hvernig við getum aukið samfélagslega þátttöku örorkulífeyrisþega, hvernig við getum búið til mannvænlegt kerfi sem gerir það að verkum að þeir sem geta sótt sér tekjur á almennum vinnumarkaði fái til þess tækifæri. Það er sjálfstætt vandamál því að það eru ekki endilega mörg störf í boði.

Eitt af því sem forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins hafa bent á er að hér er mun lægra hlutfall fatlaðs fólks á vinnumarkaði en annars staðar í Evrópu. Af hverju er það? Hljótum við ekki að spyrja okkur að því af hverju vinnumarkaður okkar, bæði sá opinberi og sá almenni, hefur þróast með þeim hætti að mun lægra hlutfall fatlaðs fólks er á vinnumarkaði hér en annars staðar?

Viljum við breyta því? Já, ég vil gjarnan sjá kerfi sem stuðlar að því. Þar með á ekki að svipta fólk framfærslu sinni. Það snýst ekki um það. Og einmitt þess vegna er þessi starfshópur starfandi til þess að fá fram þau sjónarmið sem forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins hafa gert mjög skýra grein fyrir, bæði við mig og vafalaust félagsmálaráðherra sem fer fyrir þessum hópi.