149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

störf umboðsmanns Alþingis.

[11:04]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög góða fyrirspurn um mikilvægt mál. Hv. þingmaður spyr um verklagsreglur og ég get upplýst hv. þingmann um að ég tel ekki að það séu neinar verklagsreglur um það að ráðuneytum beri að kynna sér skýrslu umboðsmanns Alþingis. Hins vegar veit ég að mörg ráðuneyti gera það. Ég hef gert það, bæði í mínu fyrra starfi sem mennta- og menningarmálaráðherra en líka sem forsætisráðherra, en tel þó ekki að neinar slíkar verklagsreglur séu fyrir hendi.

Þær verklagsreglur sem eru fyrir hendi hafa verið þær að erindi frá umboðsmanni Alþingis njóti ákveðins forgangs og beri að svara hratt og vel. Ég hjó líka eftir því í skýrslu umboðsmanns sem hv. þingmaður nefnir hér, að dregist hafi úr hömlu að svara erindum frá umboðsmanni hjá ráðuneytum og stofnunum. Það er nokkuð sem ég tel algjörlega óásættanlegt og hyggst taka upp.

Raunar leiddi sú skoðun á erindunum það líka í ljós að það er gríðarlega mismunandi málafjöldi og erindafjöldi sem berst ólíkum ráðuneytum. Það þekki ég sömuleiðis frá mínu fyrra starfi þar sem innsend erindi til mennta- og menningarmálaráðuneytis námu á þeim tíma mörg þúsund erindum. Það var því miður þannig að oft dróst að svara þeim erindum, hreinlega vegna ofálags á starfsfólk ráðuneytisins.

Hins vegar er ég sammála hv. þingmanni um að stjórnsýslulögin séu þess eðlis að þau skyldi ráðuneyti og stofnanir til að svara. Það er útskýring en ekki afsökun, eins og maðurinn sagði. Spurningin er hvort við getum innleitt skýrari verklagsreglur og þá kallar það jafnvel á að fara yfir stjórnsýslulögin. Ég hef verið að skoða í ráðuneyti mínu hvort ekki sé ástæða til að fara yfir stjórnsýslulögin hvað þetta varðar þannig að hægt sé að setja skýrari reglur. (Forseti hringir.) Þetta er eitt af því sem varðar jafnræði borgaranna gagnvart stjórnsýslunni.