149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

beiðni um fund í atvinnuveganefnd.

[11:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég sat fund hjá hv. atvinnuveganefnd í morgun þar sem m.a. hv. þm. Sigurður Páll Jónsson kom inn á nákvæmlega þann þátt. Ég er ekki endilega sammála honum efnislega um hvert við eigum að fara með skipulagningu á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, ég tel mikilvægt til lengri tíma að við horfum á það sem matvælaráðuneyti, en fyrirspurn hv. þingmanns er hins vegar fullkomlega eðlileg. Ég tel hann á sinn hátt vera að gæta eftirlitshlutverks Alþingis. Hann krefst þess að ráðherra mæti til að upplýsa um ákvarðanir sem geta haft mikla þýðingu fyrir bæði þróun landbúnaðar og þróun matvælaiðnaðar hér á landi, svo dæmi séu tekin. Mér fannst þess vegna miður að heyra að hæstv. ráðherra, sem er í ákveðinni vegferð með málið sem ég er nokkuð hlynnt, komi ekki fyrir nefndina. Ég vil eindregið taka undir bón hv. þm. Sigurðar Páls Jónssonar hvað það mál varðar og fá hæstv. ráðherra fyrir nefndina þannig að við getum a.m.k. tekið spjall um það hvert er verið að fara með þetta mikilvæga ráðuneyti. Það er að mínu mati framtíðarráðuneyti fyrir íslensk matvæli, til lengri tíma litið.