149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

beiðni um fund í atvinnuveganefnd.

[11:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég var líka viðstödd þennan umrædda fund atvinnuveganefndar í morgun og má til með að taka undir með hv. kollega mínum hér. Það er leiður ósiður ef hæstv. ráðherrar fara að stunda það að neita nefndum um að sinna eftirlitshlutverki sínu og neita að mæta á nefndafundi þegar nefndarmenn kalla eftir því. Ég man eftir öðru tiltölulega nýlegu dæmi þegar hæstv. fjármálaráðherra neitaði að mæta fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna þess að hann taldi sig þá þegar hafa útskýrt það í fjölmiðlum að hafa falið nokkrar skýrslur fyrir fjölmiðlum og Alþingi. Hann taldi sig þar af leiðandi ekki þurfa að útskýra það fyrir þinginu, eftirlitsaðila sínum.

Það er nokkuð sem ekki má verða óskrifuð regla á þinginu. Ég hvet forseta til þess að hvetja alla hæstv. ráðherra eindregið til þess að sinna skyldum sínum og mæta á fundi nefnda Alþingis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)