149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:35]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég las einmitt þetta milli línanna í ræðu hv. þingmanns þannig að mér fannst ágætt að fá hreint fram hvað þar væri verið að ræða.

Það er að sjálfsögðu margt áhugavert í skýrslunni og hægt að fara margar leiðir í þessu eins og hv. þingmaður veit töluvert betur en ég þegar kemur að þessum málum. Ég deili þó áhuga hans á orðalagi skýrslunnar. Ég er ekki viss um að sumt sem kemur mér spánskt fyrir sjónir skemmti honum jafn mikið. Eindarvarúð er nýja uppáhaldsorðið mitt en ég hygg að sjóaðri menn en ég í hagfræði þekki það betur.

Við höfum rætt hér um húsnæðisliðinn og samræmda vísitölu neysluverðs. Hv. þingmaður hefur komið ágætlega inn á það í ræðum hér í þinginu áður. Ég ætlaði kannski að freista þess að ræða vísitöluna sjálfa. Það eru margar leiðir farnar víða. Evrópski seðlabankinn er með samræmda vísitölu neysluverðs og þar er leigukostnaður reiknaður inn. Hv. þingmaður nefndi Noreg og Svíþjóð og þar eru ólíkar aðferðir, meira að segja á milli þeirra landa, hvort leigukostnaðurinn er með eða hvort miðað er við eigið húsnæði. Mig langaði að ræða aðeins við hv. þingmann um þetta og kannski þá staðreynd að í æ samtvinnaðri heimi geta atburðir í fjarlægum löndum haft hér meiri efnahagsleg áhrif en ýmislegt sem hér gerist — við undanskiljum að sjálfsögðu hrunið sem og ýmislegt fleira — og þar sem eitt tíst hvatvíss þjóðhöfðingja getur haft meiri áhrif á þennan grunn eða það sem út úr honum kemur, en ýmislegt sem hér gerist. Er þörf á og er hægt á einhvern hátt að útvíkka þann grunn (Forseti hringir.) sem að baki þessu liggur? Þá er ég kannski ekki endilega að horfa á húsnæðisliðinn, hv. þingmaður hefur talað vel og lengi um hann, en hvort kannski sé (Forseti hringir.) þörf á fjölbreyttari hugsun í þessu.