149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:40]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. 200 milljarðar, 200.000 millj. kr. sem er 25% af heildarútgjöldum ríkissjóðs, þrisvar sinnum hærri fjárhæð en Buchheit-samningarnir í Icesave-málinu hefðu kostað okkur alls, fimmföld sú fjárhæð sem við verjum til samgöngumála á ári. Það er dálítið erfitt að ná utan um svona stórar tölur en við getum sennilega öll verið sammála um að þetta sé mjög há tala, 200 milljarðar. Þetta er sú fjárhæð sem krónan kostar okkur í viðbótarvaxtakostnað á hverju ári. Með því að ná fram sambærilegu vaxtastigi og í nágrannalöndum okkar mætti lækka vaxtakostnað hins opinbera, fyrirtækja og íslenskra heimila um 200 milljarða kr. á hverju ári. Það er 570.000 kr. á hvern íbúa á hverju ári. Mér dettur ýmislegt skemmtilegt í hug til að gera fyrir þann pening. Vaxtasparnaður ríkissjóðs eins næmi um 35 milljörðum kr. á ári sem jafnast á við heildarframlög okkar til háskólanna á ári og er þrisvar sinnum meira en við leggjum í nýsköpun eða rannsóknir á ári.

Ég biðst forláts á þessari talnaupptalningu en ég held að það sé alveg óhætt að slá því föstu að krónan okkar er mjög dýr mynt. Hún er dýr fyrir allt samfélagið, fyrirtækin og heimilin. En vaxtamunurinn er ekki eini kostnaðurinn við krónuna, þær sveiflur sem hún veldur eru líka mjög kostnaðarsamar. Rússíbanaumhverfið sem hún skapar fyrir útflutningsfyrirtæki kostar svo sannarlega mikið þó að erfitt sé að mæla það. Hún er einstaklega óstöðug mynt. Hún er ekki gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum og það sem helst virðist vera talið henni til tekna er sveigjanleiki hennar, eða í einföldu máli: Geta hennar og hæfileiki til að falla þegar á þarf að halda. En það gleymist líka í þeirri umræðu að krónan magnar hagsveiflur í stað þess að jafna þær. Það er kannski einfaldast að horfa á það með þessum hætti: Krónan styrkist gjarnan mjög mikið á tímum uppsveiflu á sama tíma og kaupmáttur okkar vex. Krónan magnar þannig upp enn frekar kaupmátt heimilanna og kaupmáttur eða einkaneysla heimilanna er um helmingurinn af landsframleiðslu okkar. Á sama tíma og hagstjórnin þyrfti í raun að beisla þennan kaupmátt þá magnar krónan hann upp. Svo þegar kreppir að að nýju, það dregst saman og krónan fellur, fer það gjarnan saman við kólnun í hagkerfinu, launahækkanir eru minni en ella og kaupmáttur að rýrna. Þá rýrir krónan þann kaupmátt enn frekar með falli sínu þegar það þyrfti að örva þennan sama kaupmátt. Þess vegna er full ástæða til að velta fyrir sér: Hver er kostnaðurinn af krónunni og hversu vel virkar hún fyrir okkur í raun?

Þess vegna fagna ég þessari umræðu um skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu sem síðasta ríkisstjórn óskaði eftir að yrði unnin. Þetta er mikilvæg og löngu tímabær umræða og kannski ekki hvað síst núna þegar við horfum upp á að krónan er einmitt byrjuð að falla á ný og er búin að falla núna um 10% á tiltölulega skömmum tíma. Það er í raun og veru stórfurðulegt að við í þessum sal séum ekki statt og stöðugt að ræða þetta vandamál, þennan 200 milljarða kr. leka í raun og veru, ef mætti orða það þannig, sem heimili, fyrirtæki og hið opinbera verða fyrir á hverju ári. Við getum rifist um marga talsvert veigaminni kostnaðarliði en þennan, jafnvel talsvert óreglulegri. En 200 milljarðar á ári hlýtur að vera þess virði að ræða hér og leita allra leiða til að finna úrbætur á þessu.

Það vakti þess vegna furðu mína á sínum tíma þegar Seðlabankinn skilaði 600 blaðsíðna skýrslu um valkosti okkar í peningamálum og hún fékk enga formlega umræðu í þingsal. Við gerðum ekkert með hana hér og ótrúlegt til þess að hugsa að við vorum á sama tímapunkti að stíga upp úr fullkomnu gjaldmiðilshruni. Því miður sýnist mér miðað við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar að hún hafi engin sérstök áform um breytingar á þessu sviði. Hún hefur þegar lýst því yfir að áfram verði unnið eftir verðbólgumarkmiði en embættismannastarfshópur settur í það að skoða ýmsar leiðir til fínpússningar á því.

Forseti. Þegar meta ætti árangur núverandi peningastefnu má horfa til tveggja einfaldra þátta. Hvernig stöndumst við samanburð við nágrannalönd okkar þegar kemur að verðbólgu og vöxtum? Þetta er ekkert mjög flókið á endanum þó svo að peningastefna og umræða um hana geti vissulega verið flókin. Myndin sem blasir við er ekkert mjög falleg. Frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp árið 2001 hefur verðbólga að meðaltali numið um 5% á ári og vextir að meðaltali verið hér 4% hærri en á evrusvæðinu. Enn og aftur, þessir 200 milljarðar sem við greiðum aukalega. Á sama tímabili hafa nágrannar okkar í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi að jafnaði búið við 0,2% vaxtamun við evrusvæðið og árlega verðbólgu á bilinu 1,5–2%. Vissulega hefur verðbólgan verið hér lægri að undanförnu, raunar innan verðbólgumarkmiðsins þar til nýverið, en það er ekki biti peningastefnunnar að þakka heldur styrkingu krónunnar á þessu tímabili. Ef við myndum leiðrétta fyrir þessari styrkingu, sem er umtalsverð á árunum 2016–2018, hefði verðbólga verið um 4–4,5% í gegnum allt tímabilið, ekki þau 2–2,5% sem raunin varð. Nú er krónan farin að veikjast á ný eins og gerist alltaf þegar kólnar í hagkerfinu og fyrir vikið fáum við enn og aftur að glíma við kólnandi hagkerfi, aukna verðbólgu og minnkandi kaupmátt allt í senn, þökk sé þessum margrómaða sveigjanleika krónunnar.

Veikingin á ekki að koma neitt sérstaklega á óvart. Raungengisstyrking á borð við þá sem verið hefur hér á undanförnum árum hefur aldrei staðist til lengdar í íslenskri hagsögu, því miður. Enn sem fyrr mun þessi veiking rýra kaupmátt heimilanna talsvert og hækka verðtryggð lán. Sjálfsagt er ekkert óeðlilegt að ætla, miðað við þá veikingu sem þegar er orðin á krónunni og þá staðreynd að 35–40% þeirra veikingar leitar út í verðlag, að við séum að horfa á 4–5% verðbólguhraða á næstu mánuðum. Því miður. Þetta endurspeglast í því að trú bæði einstaklinga og fyrirtækja á því að verðbólgumarkmiðið standist er horfin samkvæmt öllum nýjustu mælingum. Þar fór trúverðugleiki peningastefnunnar á nokkrum vikum og í raun og veru má segja frá því að krónan byrjaði að veikjast.

Það er auðvitað mjög áhugavert í þessu samhengi að á sama tíma og árangur okkar í peningastjórninni eru jafn hróplega lélegur og raun ber vitni þá hafa hin Norðurlöndin náð mjög góðum árangri í þessum efnum, hvert með sinni leið. Finnar tóku upp evru, Danir festu gengi krónunnar við evru og Svíar, þrátt fyrir að það eigi að heita svo að þeir séu með sjálfstæða peningastefnu og sína sænsku krónu, tóku þá ákvörðun að þeir hefðu í raun og veru ekki sjálfstæða peningastefnu og stilltu einfaldlega vaxtastig sænska seðlabankans af við vaxtastig þess evrópska. Enda kemur mjög glögglega í ljós í þeirri ágætu skýrslu sem hér er um að ræða að valkostirnir eru kannski færri og afmarkaðri en við höfum talið, þ.e. það er val á milli aðildar að myntsvæði eða einhvers konar fastgengisstefnu eða einfaldlega sjálfstæðrar peningastefnu með höftum. Þetta eru valkostirnir sem við stöndum frammi fyrir og niðurstaða skýrslunnar er að velja sjálfstæðu peningastefnuna með höftum.

Ef við ræðum aðeins þessa skýrslu betur þá er hún mjög góð þó ekki væri nema fyrir samantektina á öllum þeim útgáfum á peningastefnu sem við höfum prófað á undanfarinni öld eða svo. Það eru a.m.k. tíu mismunandi leiðir sem við höfum sprengt utan af okkur á þessu tímabili. Við erum með u.þ.b. tíu ára meðallíftíma peningastefnu í þessu samfélagi. Á undanförnum þremur áratugum höfum við verið með fastgengi í höftum, fastgengi með frjálsu fjármagnsflæði að hluta, verðbólgumarkmið í frjálsu flæði, verðbólgumarkmið í höftum og verðbólgumarkmið í höftum að hluta. Ekkert af þessu hefur í raun og veru skilað því sem mætti kalla ásættanlegum árangri því að afraksturinn er sem fyrr segir liðlega 4% vaxtamunur, sem er enn í dag slíkur, við nágrannalönd okkar og um 5% verðbólga að jafnaði.

Höfundar skýrslunnar draga tíu meginlærdóma af þessari hrakfallasögu okkar í peningastjórn og ég ætla að tæpa á þremur sem eiga það kannski sameiginlegt hvað það er mikilvægt að virða leikreglur peningastefnunnar óháð því hvaða peningastefna verður fyrir valinu.

Það er í fyrsta lagi mjög mikilvægt að peningastefnan hafi pólitískan stuðning. Það er nauðsynlegt að ríkisfjármálin styðji við hagstjórn og stjórn peningamála með því að auka ekki á þenslu með óábyrgri útgjaldaaukningu þegar síst má við því, þegar við erum í uppsveiflunni, en það hefur alltaf verið raunin hér. Fjármálastefna hins opinbera í gegnum árin og áratugina hefur verið að eyða þeim krónum sem koma inn. Fyrirhyggjan hefur sjaldnast verið fyrir hendi og það er alveg skýrt í stefnu þessarar ríkisstjórnar, það er beinlínis yfirlýst markmið um að þverbrjóta þessa reglu. En ábyrg ríkisfjármálastefna dugir ekki ein til. Alþingi verður að hafa hönd í bagga þegar valkostir um peningastefnu eru uppi á borðinu. Þetta er ekki bara ákvörðun Seðlabankans. Það verður að vera pólitískur stuðningur í þessum sal við þá leið sem valin er til þess að hún njóti bæði trausts og stuðnings úr þessum sama sal þegar reynir á hana. Það hefur oft sýnt sig í gegnum tíðina að hér er verið að gagnrýna peningastefnuna á sama tíma og hún þyrfti á stuðningi að halda.

Í öðru lagi er stöðugleiki á vinnumarkaði undirstaða verðlagsstöðugleika. Þetta er eitthvað sem við verðum einfaldlega að horfast í augu við að við verðum að tileinka okkur. Stjórnmál eiga ekki að vera að skipta sér af því hvernig samið er á vinnumarkaði eða um hvað er samið, en þegar við semjum ítrekað á vinnumarkaði um tvöfaldar til þrefaldar launahækkanir í samanburði við nágrannalönd okkar þá verðum við líka að horfast í augu við það að við eigum við augljósan strúktúrvanda á vinnumarkaði að glíma. Það er í raun og veru það sem stendur upp úr öllum tillögum, allri umfjöllun í þessari skýrslu og fleirum. Við erum ófær um að betrumbæta peningastefnu okkar, gera á henni nauðsynlegar umbætur án þess að umbætur á vinnumarkaði og í ríkisfjármálunum fylgi með.

Í þriðja lagi er greiðslujöfnuður öxull íslenskrar hagstjórnar. Þetta er kannski það sem skiptir mestu máli á endanum. Það er alveg sama hvaða peningastefnu við erum með, við erum örríki með örsmáa óstöðuga mynt og við erum algerlega ofurseld fjármagnsflæði til eða frá landinu. Við höfum voðalega lítið um það að segja á endanum hvað erlendum fjárfestum finnst um okkur, hvort þeir kjósi að fjárfesta hér eða flýja. En það segir sig alveg sjálft í því samhengi að við getum ekki haldið uppi verulegum vaxtamun við nágrannalönd okkar öðruvísi en að vera með gjaldeyrishöft. Þau geta verið innflæðishöft eins og nú er eða útflæðishöft þegar verr árar, en það verður framtíð okkar með sjálfstæða örmynt og sjálfstæða peningastefnu. Það er ágætt að við gerum okkur skýra grein fyrir þeim valkostum. En gjaldeyrishöft í mínum huga eru bara ekki valkostur. Þau eru ekki æskileg leið í hagstjórninni. Þau eru alveg skelfileg leið í opnu alþjóðavæddu hagkerfi þar sem við viljum einmitt nýta okkur tækifæri framtíðarinnar í nýsköpun, tækniþróun og hverjum þeim tækifærum sem kunna að skapast fyrir okkur. Þess vegna held ég að við þurfum að taka það mjög alvarlega þegar þessum valkostum er stillt upp fyrir okkur.

Skýrsluhöfundar leggja til nokkrar tæknilegar umbætur á núverandi peningastefnu sem áfram verður þó í grunninn sjálfstæð peningastefna með verðbólgumarkmiði. Margar þeirra eru án efa til bóta svo sem sameining Seðlabanka og Fjármálaeftirlits, aukin notkun þjóðhagsvarúðar og að í verðbólgumarkmiði verði stuðst við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar, en jafnframt gripið til ýmissa breytinga með það að markmiði að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika peningastefnunnar. Allt er þetta vafalítið til góða. Það er hins vegar ekki kjarni máls, forseti. Áfram yrði stuðst við peningastefnu á grunni einnar smæstu og óstöðugustu myntar heims. Allar tilraunir okkar hingað til til að nota hana hafa misheppnast með gríðarlegum kostnaði fyrir heimili og fyrirtæki í landinu og það er ágætt að hafa í huga að flest stærstu útflutningsfyrirtæki landsins hafa í raun og veru valið sig frá þessari sömu mynt sem margir dást svo að. Flest stærstu sjávarútvegsfyrirtæki gera upp í evrum.

Það er líka vert að hafa í huga að við erum eina þjóðin með færri en 2 milljónir íbúa sem hefur reynt að reka sjálfstæða peningastefnu með sjálfstæðri mynt. Hinar 84 hafa valið sér einhverjar aðrar leiðir. Það eru kannski einhver skilaboð sem felast í þeirri einföldu staðreynd. Þessi tilraun er einfaldlega fullreynd og það er mál að linni.

Það er miður að skýrsluhöfundum var ekki heimilað að fjalla um raunhæfasta og besta valkostinn við núverandi peningastefnu sem er upptaka evru í gegnum aðild að Evrópusambandinu. Þáverandi samstarfsflokkur okkar í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn, hafði ekki kjark til að horfast í augu við þann samanburð, mögulega af ótta við að hann reyndist einfaldlega sá skynsamlegasti og hagfelldasti fyrir þjóðina. Við búum við árlegan vaxtakostnað upp á 200 milljarða kr. aukalega í samanburði við nágrannalönd okkar og eitt sveiflukenndasta hagkerfi í hinum vestræna heimi, hvort sem horft er til gengis, verðbólgu, hagvaxtar eða atvinnustigs. Á þessu þurfum við að ráða bót. Er ekki tímabært að skoða til hlítar alla raunhæfa kosti til að ná tökum á þessum óstöðugleika og skapa íslenskum heimilum og fyrirtækjum sambærilegan grundvöll til góðra lífskjara og nágrannar okkar í Evrópu njóta?

Jónas H. Haralz, sem án efa er einn áhrifamesti hagfræðingur okkar á 20. öldinni, fjallaði í erindi í Vísindafélagi Íslands í apríl 2009 um hrakfarir Íslands í gjaldmiðilsmálum. Hann ræddi þar hversu lengi og hversu oft við hefðum í gegnum tíðina hikað og veigrað okkur við að taka þátt í alþjóðlegu myntsamstarfi í gegnum (Forseti hringir.) tíðina til að tryggja okkur nothæfa alþjóðlega mynt, nú síðast evruna. Lokaorð Jónasar í þessu erindi geri ég að mínum, (Forseti hringir.) með leyfi forseta: „Ég held satt að segja að það sé nógu oft og nógu lengi.“