149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Nei, í sjálfu sér er ég ekki að segja það. En ef vinnumarkaðurinn myndi ákveða að semja um slíka hæla væri það algjörlega vinnumarkaðarins að semja um það. Það er tvennt í þessu sem vert er að hafa í huga. Ég held að við tölum mjög oft um að hinn norræni vinnumarkaður sé laus við öll vandamál sem við erum að glíma við hér en þau eru í raun öll hin sömu. Þar hafa menn bara sammælst um leiðir til að leysa þau. Auðvitað eru átök milli einstakra hópa á norræna vinnumarkaðnum um það hvort launasetning sé hlutfallslega rétt, hvort þessi hópur sé í réttu hlutfalli við annan. Þetta eru stöðug átök. En á endanum hafa þau sameinast um aðferðafræðina til að halda heildarlaunabreytingunni innan þess ramma sem samrýmast á verðlagsstöðugleika til lengri tíma litið og það eiga öll löndin sammerkt, hvort sem horft er til Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur eða Finnlands.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að þessi samanburðarfræði á vinnumarkaði eru yfirleitt rótin að óstöðugleikanum. Við getum t.d. ekki ráðist í átak um að hækka lægstu laun sérstaklega nema að þeir sem hærri laun hafa samþykki það. Þá er ég ekki að tala um hópa sem áður voru úrskurðaðir samkvæmt kjararáði eða æðstu stjórnendur á vinnumarkaði, heldur fyrst og fremst næstu hópana þar fyrir ofan, millitekjuhópana, háskólamenntaða fólkið, iðnaðarmennina o.s.frv. Þetta eru yfirleitt átökin sem eru að eiga sér stað. Það er auðvitað alger forsenda þess, ef lyfta á lægstu launum sérstaklega, að hóparnir þar fyrir ofan sætti sig við að bera minna úr býtum. Það er kannski rót vandans. Þetta er eitthvað sem verkalýðshreyfingin þarf jafnvel innbyrðis að semja um. En þetta er algerlega viðfangsefni aðilanna. Ég geri engar athugasemdir við (Forseti hringir.) að aðilar vinnumarkaðarins eða verkalýðshreyfingin hafi ákveðna stefnu og breyti henni frá einum tíma til annars. Aðalatriðið er að heildarlaunahækkunin þarf að vera innan þessa þjóðhagslega ramma.