149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:31]
Horfa

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er akkúrat það sem við eigum að ræða. Mér finnst hv. þingmaður hafa hitt þarna naglann á höfuðið. Við þurfum nefnilega að ræða valkosti eins og ég fjallaði um í ræðu minni, en við erum ekki með þá á borðinu. Við eigum ekki að gefa okkur fyrir fram að ein niðurstaða sé rétt áður en við setjumst við borðið og byrjum að semja.

Ég heyri að virðulegur hv. þingmaður hefur mikla reynslu af því að vera í Evrópusambandinu og er gaman að því. En við erum hluti af Evrópska efnahagssvæðinu og meginhluti þeirra laga, okkar viðskipta og lögin sem við förum eftir miðast við Evrópska efnahagssvæðið og við erum nú þegar nokkuð vel aðlöguð að þessum aðstæðum. Stærstu viðskiptaþjóðir okkar eru hvor sínum megin við okkur, í Evrópusambandinu ansi margar og í Evrópu þó nokkuð margar. Ég held því að ef það yrði fyrir valinu yrði það ekki mjög dramatískt sjokk fyrir hagkerfið að laga sig að því. Það þyrfti sannarlega að gera það en það eru kostir og gallar við allar leiðir, ég efa það ekki. Ég er ekki með allar lausnirnar á því hvernig er að leysa úr því fyrir fram, en maður leysir ekki úr neinum vandamálum nema með því að setjast við borðið til að semja um það og til þess að sjá eitthvað fyrir. Við getum fabúlerað um þetta alveg fram á kvöld, en þetta held ég.