149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:27]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta fyrirspurn. Það er alveg hárrétt hjá honum að ég dvaldi kannski ekki mjög mikið við skýrsluna sjálfa og einstakar tillögur þar. Það er hið mætasta og vandaðasta fólk sem stendur að þessari skýrslu. Ég dreg ekki í efa að þau hafi lagt sig í framkróka við að velja réttan dekkjaumgang undir bílinn að þessu sinni. Margt af því er örugglega ágætt og sumt af því sjálfsagt mjög gott.

Ég held að það sé ágætt að hafa þennan vegvísi inn í nýja peningastefnu, á þessum grundvelli. En mér finnst samt sem áður að það sé ekki gott, og eiginlega mjög slæmt, sérstaklega ef ég held mig við eigin myndlíkingu, að ætla út í mýrina. Það þýðir ekkert að setja nýjan dekkjaumgang, hversu traustur og góður og vel rifflaður sem hann er, menn fara bara ekkert yfir. Það er kjarni málsins.

Ég efast ekkert um að viðleitnin er góð og kannski gengur eitthvað örlítið betur og allt það. En ég held að við munum enda á bólakafi í mýrinni eftir sem áður, þótt ég voni svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér.