149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

mótun klasastefnu.

28. mál
[18:35]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið og vil taka það fram svo það misskiljist ekki að ég held að allar þessar hugmyndir séu mjög góðra gjalda verðar. Þar sem vel tekst til um þverfaglegt samstarf milli greina, á milli sjóða, vísinda og tækni og fyrirtækja, getur leitt til mjög góðra hluta. Ég er algjörlega þeirrar skoðunar.

Það sem ég er að reyna að leggja áherslu á er að prímusinn í því sem gerist sé hið sjálfsprottna. Ég held að eðlilegt klasastarf verði ekki til nema þeir sem koma að klasastarfinu finni sjálfir fyrir þeirri þörf og fyrir þeim ávinningi sem er í boði. Það að setja upp hús og segja: Hér eiga að sitja saman í stjórn aðilar frá þessum og hinum o.s.frv., er ekki vænlegt til árangurs. Ég er að reyna að koma þessu frá mér þannig að það skiljist, það er svo mikilvægt að láta þörfina ráða því að á endanum er það þannig að þeir sem eru með hugmyndirnar og þekkinguna leita saman. Og það á auðvitað að hjálpa þeim við það. Ég tek algerlega undir það.

Ég er ekki að segja að þessi þingsályktunartillaga sé með einhverjum hætti á móti þessu. En ég held að það sé mikilvægt að við höfum í huga þegar við ræðum þetta og höldum áfram að þetta er forsenda þess að náist árangur. Það að fara þá leið að ætla að búa hlutina til, (Forseti hringir.) einhvern veginn að ofan, það endar ekki vel, held ég.