149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[13:49]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem kom fram hjá honum að áætlað er að það takist að ljúka Dýrafjarðargöngunum 2021. Eins og ég svaraði hér fyrir nokkru í umræðum um samgönguáætlun þá hefði verið ágætt ef menn hefðu á þeim tíma haft nægilega langtímasýn þannig að Vegagerðin hefði, þegar þau göng voru undirbúin, haft alla vegagerð sem tengist göngunum, þ.e. bæði Dynjandisheiðina og Bíldudalsveg, í samhangandi skoðun. Staðreyndin er auðvitað sú að núna eru þessir vegir í umhverfismati og það er enn verið að hanna, í staðinn fyrir að þetta hefði allt legið fyrir þegar göngin voru boðin út. En það var aftur á móti pólitísk ákvörðun hér á þing, mjög skiljanlega held ég, að senda þau skilaboð að það væri komið að næstu göngum.

Varðandi þá umræðu sem hér varð um daginn þá er framkvæmdarvaldið núna búið að skila þessari áætlun til þingsins og ég lýsti því og hef lýst því yfir í umhverfis- og samgöngunefnd og beindi þeim tilmælum, þeim jákvæðu tilmælum, til nefndarinnar að mér fyndist eðlilegt að skoða hvort hægt væri að flýta því eitthvað. En það er þó þannig að á árinu 2020 fara 300 milljónir til þess að taka einbreiða brú sunnan í Dynjandisheiði sem er mjög léleg og verður sennilega sett í stokk og kemst í notkun strax í framhaldi af því. Síðan árið 2022 verða settir fjármunir einnig í Dynjandisheiði en síðan fer krafturinn í hana 2023. Það væri auðvitað ákjósanlegt ef hægt væri að gera það eitthvað fyrr.

Varðandi Gufudalssveit og þjónustu skal ég koma að því í seinna svari.