149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:40]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil hrósa sérstaklega hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að hafa frumkvæði að þessari umræðu en fáum þingmönnum er jafn umhugað um eflingu nærsamfélagsins og henni.

Um 64% af þjóðinni býr á höfuðborgarsvæðinu. Sé tekið stórhöfuðborgarsvæðið, frá Hvítá til Hvítár, fer hlutfallið upp í 77%, tæplega 80% af þjóðinni búa á því svæði. Einungis fimm lönd í heiminum hafa hærra hlutfall íbúa sinna á einu svæði. Ísland er því eitt mesta borgríki í heimi, nálægt Singapúr og við erum við hliðina á Katar og Bahamaeyjum og er Ísland því alls ekki eins dreifbýlt og margir, jafnvel hér í þessum sal, telja.

Skoðum hins vegar meðalíbúafjölda sveitarfélaga hérlendis. Ef hann væri svipaður og er í Noregi og Finnlandi þá ættu sveitarfélög á Íslandi að vera um 20 talsins en ekki 72 eins og þau eru núna. Í Finnlandi og Danmörku er gert ráð fyrir að hvert sveitarfélag verði að hafa fleiri en 20.000 íbúa. Hérlendis er rætt um að lágmarksfjöldi eigi að vera 1.000 íbúar en er núna einungis 50 íbúar. Á Grænlandi verður hvert sveitarfélaga að hafa a.m.k. 8.000 íbúa, en íbúafjöldi Grænlands er þó aðeins einn sjötti af því sem er hérlendis.

Á Íslandi eru um 40 sveitarfélög sem hafa færri en 1.000 íbúa og 50 sveitarfélög eru með færri en 2.000 íbúa. Ég er því sannfærður um, herra forseti, að viljum við efla sveitarstjórnarstigið sem margir hér inni vilja, t.d. með flutningi verkefna, fjölga tekjustofnum þeirra og ekki síst tryggja jafnræði milli íbúa hvar sem þeir búa, þegar litið er til félags-, skóla- og velferðarmála, þá verðum við að fækka og stækka sveitarfélög á Íslandi.