149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:45]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og koma henni á dagskrá, og eins hæstv. ráðherra fyrir að vera til svara. Þessi málaflokkur er nánast eilífðarmál og þarf alltaf að hressa upp á þessa umræðu. Komið hefur fram í umræðunni, sem hefur verið voða mikið á því sviði, ýmislegt um sameiningu sveitarfélaga og samskipti ríkis og sveitarfélaga og hagræðinguna í því að sameina sveitarfélög. Úti í dreifbýlinu þar sem sveitarfélög eru ekki sameinuð fara jaðarsveitarfélög samt oft fram á þjónustu þar sem sveitarfélög eru sameinuð ef lítil sveitarfélög eru innan svæðisins. Það er ekki gott.

Þingmaðurinn spurði ráðherrann hvaða verkefni ráðherrann sæi fyrir sér að yrðu flutt að auki til sveitarfélaganna. Tók ráðherrann fram að framhaldsskólar og aukin þjónusta við aldraða yrðu færð út til sveitarfélaganna. Það er í sjálfu sér hið besta mál að þjónustan sé sem mest í nærsamfélaginu, en það er þetta með fjármagnið, það verður þá að vera tryggt. Það er yfirleitt alltaf tryggt í upphafi kjörtímabils og er þá ekki gert ráð fyrir því að það geti aukist á tímabilinu. Það er mjög slæmt. Ég hef reynslu af því að vera í sveitarstjórn og hef oft lent í því að vera í tómum vandræðum þegar kemur að því að deila út peningunum í (Forseti hringir.) samfélagsverkefnin. (Forseti hringir.) Tvær mínútur eru gríðarlega fljótar að líða þannig að ég lýk hér máli mínu.