149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[15:18]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið snertir efni þessa frumvarps fyrst og fremst þá starfsmenn sem veita munu þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem og þá einstaklinga sem njóta þjónustunnar.

Við vorum með annað mál þessu nátengt í þinginu sl. vetur sem sneri að þjónustu við fatlað fólk og var nokkuð viðamikið og kallaði á ígrunduð vinnubrögð og hugsun. Hér er þá komið framhaldið, ef svo má segja, þar sem áhersla er á starfsmenn, starfsaðstæður og þá einstaklinga sem njóta.

Í þessari greinargerð er sagt að til að tryggja eðlilega lagasetningu NPA, eða notendastýrðrar persónulegar aðstoðar, sé mikilvægt að koma því inn að áfram verði fjallað um heimild til að setja rýmri vinnutíma en ákvæði laganna gera ráð fyrir, vegna þeirra starfsmanna sem veita umrædda þjónustu.

Það gefur augaleið að í einhverjum tilvikum verður vinnutími starfsmanna rýmri en hefðbundinn, eða með öðrum orðum: áfram verður hægt að semja um frávik frá ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hvað varðar vinnutíma þeirra starfsmanna sem veita munu þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, eins og verið hefur meðan á tilraunaverkefninu hefur staðið.

Ég nefni þetta atriði sérstaklega af því að það er það sem við verðum að ná niðurstöðu um. Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra hefur Vinnueftirlit ríkisins lagst gegn því að framlengja þessi frávik frá lágmarksreglum um vinnutíma þar sem ekki lengur sé um bráðabirgðaverkefni að ræða. Undir það sjónarmið taka svo ASÍ og BSRB og Bandalag háskólamanna lýsir yfir andstöðu sinni við áframhaldandi undanþágu frá hvíldartímaákvæðum vinnuverndarlaganna.

Ég vona svo sannarlega að við náum niðurstöðu í þessu mikilvæga máli, sérstaklega nú á þessum tíma, þannig að við getum innleitt fullnægjandi notendastýrða persónulega aðstoð, NPA, fyrir alla aðila og þennan hluta sem snýr að henni.

Í lokin vil ég aðeins minnast á það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra þar sem hann talaði um að hann ætlaði að skipa nefnd. Ég vona svo sannarlega að sú nefnd vinni hratt og vel því að við höfum undanfarið heyrt um ýmsa annmarka á því, sérstaklega hjá sveitarfélögum, varðandi hvernig koma eigi þessu mikilvæga máli áfram. Við þurfum því öll að vanda okkur og sjá til þess að málið fái farsælan endi.