149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

brottfall laga um ríkisskuldabréf.

210. mál
[16:06]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að lýsa mig almennt meðmæltan þessu frumvarpi, með það fyrir augum að það auki sveigjanleika í lána- og áhættustýringu ríkissjóðs.

Reyndar erum við Íslendingar komnir á þann stað í tilverunni að við erum kannski að breytast úr því að vera nettólántakandi gagnvart útlöndum í að verða nettólánveitandi. Kannski mun sá dagur koma að við verðum að fjalla meira um eignastýringu en lánamál á þessum vettvangi.

Það rifjast upp fyrir mér þegar ég hafði með höndum það verkefni, þá í Seðlabankanum, að standa í fyrsta sinn fyrir útgáfu á bandarískum skuldabréfamarkaði á skuldabréfum ríkissjóðs lýðveldisins Íslands, eins og það heitir. Þá var sú útgáfa til tíu ára. Það var í febrúar 1994 og átti sér stað mikill og vandaður undirbúningur. Um svipað leyti var bandarískt lyfjafyrirtæki, Eli Lilly — einkafyrirtæki, herra forseti — að gefa út skuldabréf til 100 ára á þessum markaði.

Hér á Íslandi höfum við treyst einstaklingum til að gefa út mjög áhættusöm skuldabréf til 40 ára, mjög áhættusöm í þeim skilningi að þau eru verðtryggð og útgefandi skuldabréfsins, lántakinn, er undirseldur mjög mikilli áhættu.

Ég tel óhætt að ríkissjóður hafi þessa heimild sem sóst var eftir með því að fella niður þessi lög og ég ítreka að ég er meðmæltur frumvarpinu.