149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[16:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og tek undir með honum að gott sé og mikilvægt að hafa inni það sem varðar breytingalásinn. Ég vil líka taka undir með hæstv. ráðherra að nauðsynlegt sé að tjónabifreiðar verði ræddar innan nefndarinnar. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra um tjónabifreiðar og verður fróðlegt að fá svar við henni. Ég held að því miður sé pottur brotinn í því hvernig staðið er að því að t.d. selja tjónabifreiðar á uppboðum, hvernig vátryggingafélögum virðist í sjálfsvald sett í sumum tilfellum að skrá bifreið skemmda eða sem tjónabifreið, það er munur þar á. Ég held því að mikilvægt sé að rætt verði í nefndinni hvort ekki sé nauðsynlegt að hnykkja svolítið á því í lögunum.