149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[16:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þó að við hv. þingmaður séum sammála um margt ágætt í þessum lögum held ég að við verðum ekki sammála um þetta atriði. Það er auðvitað verið að senda mjög skýr skilaboð með þessum lögum, til að mynda varðandi breytingar á áfengismagni, vínandamagni og, í 50. gr., um að ólögleg vímuefni hafi áhrif á getu viðkomandi til að stjórna ökutæki og við viljum ekki hafa slíka aðila undir stýri. Hins vegar er stundum verið að ávísa löglegum lyfjum sem geta líka haft áhrif og þá er mikilvægt að skilgreina þau mörk. Um það snýst þessi norska leið, þessi vanhæfisreglugerð sem við þurfum að gefa út í kjölfarið.

En ég held að það sé mjög mikilvægt að þau skilaboð séu skýr, alla vega finnst mér það, frá hendi stjórnvalda að það er eitt að skilgreina lögleg mörk og reyna að finna réttar leiðir — þar geta vissulega verið einstaklingar sem eru undir miklum áhrifum af þessum lyfjum og eiga þar af leiðandi alls ekki að stjórna ökutækjum — og annað að við viljum ekki að neinn neyti ólöglegra efna né heldur víns og setjist síðan undir stýri eða stjórni ökutækjum.