149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:15]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð ég að játa að ég tapaði þræðinum og er alveg hætt að skilja. Við erum að ræða nokkur ákvæði umferðarlaga. Lækka á leyfileg mælanleg mörk áfengis og vímuefna úr 0,5 prómillum í 0,2. 0,2 prómill er eftir því sem mér skilst afskaplega lágt, lítil mæling, og getur verið einhver staða í skrokknum á manni burt séð frá neyslu áfengis. Ég þekki það bara ekki nógu vel verð ég að viðurkenna.

Ég skil ekki alveg spurningu hv. þingmanns en skilaboðin eru skýr: Við eigum ekki að vera undir áhrifum þegar við förum inn í ökutæki og stýrum því. Snýst þetta ekki bara um það? Það skiptir ekki máli hvort efnin eru lögleg eða ólögleg, það eru önnur lög sem taka á því. En fari ég af stað, eða líklega einhver annar, [Hlátur í þingsal.] undir áhrifum ólöglegra vímuefna er klárlega verið að brjóta lög. Það segir sig sjálft að það hlýtur að hafa einhverjar afleiðingar.

En skilaboðin eru skýr: Edrú undir stýri. Skiptir máli hvaða efni það er sem veldur áhrifum, hvort það er áfengi eða eitthvað annað? Ég held að ég treysti mér ekki lengra í umræðunni en þakka fyrir ágætisandsvar.