149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[17:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alveg keypt það að 0,2‰ séu eins nálægt því og við komumst í „zero tolerance“, en er það ekki það sama og með önnur vímuefni? Hv. þingmaður spyr einnig um frekar ein vímuefni en önnur. Nei, ég get ekki sagt það nema bara að því leyti að sum vímuefni eru notuð sem eru í raun og veru mjög lík löglegum, lyfseðilsskyldum efnum sem fólk notar.

Ef einhver myndi nota lyfseðilsskylt efni í miklum mæli og keyra undir áhrifum þess myndum við ekki líta það eitthvað vægari augum en ef viðkomandi hefði verið á ólöglegum efnum, en það er farið öðruvísi með það lagalega.

Eins og ég segi geri ég alveg greinarmun á fullkomnum heimi og ófullkomnum. Í fullkomnum heimi myndi ég vilja hafa viðmiðin þar sem þau eru skynsamlegust fyrir hvert efni en eins og hv. þingmaður bendir á verða mjög oft til ný vímuefni og reyndar að mínu mati ekki síst vegna þess að það er þrýstingur á að gera það vegna þess hvernig samfélög almennt bregðast við nýjum vímuefnum. Það er ákveðinn þrýstingur í undirheimunum um að búa sífellt til ný efni til að kljást við lagaumhverfi sem er síðan uppfært í takt við ný vímuefni þegar þau koma fram.

Eins og ég sagði myndi ég styðja þessa útgáfu eins og hún er núna. Mér finnst bara fyndinn og svolítið áhugaverður en líka þreytandi tvískinnungur sem ég sé í samfélaginu gagnvart vímuefnum annars vegar og ólöglegum vímuefnum hins vegar, eins og áfengi sé eitthvað sérstakt í þessum efnum sem það er ekki, nema lagalega.

„Zero tolerance“ er reyndar hugtak sem við ættum ekki að vera hrifin af. Í gegnum tíðina hefur það í raun og veru þýtt burt með réttindi, burt með allar málsbætur og dæma eins hart og mögulegt er. Það er það sem „zero tolerance“ þýðir almennt í pólitíkinni, a.m.k. erlendis. Við höfum sem betur fer ekki notað það mikið hér. Ég velti fyrir mér (Forseti hringir.) hvort við viljum eitthvað frekar „zero tolerance“ þegar kemur að ólöglegum vímuefnum en löglegum? Mér finnst „zero tolerance“ ekki eiga að vera neins staðar eins og það er notað erlendis. Ég vildi að ég hefði meiri tíma til að ræða þetta, hv. þingmaður, en ég verð því miður að ljúka þessu hér.