149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kannski ekki víst að ég átti mig alveg á spurningu hv. þingmanns en það er í öllu falli þannig að með frumvarpinu er lögð áhersla á að reglugerðarheimildin fái að standa eins og hún er til að með nánari ákvæðum sé hægt að kveða á um það í reglugerðinni og koma þannig mögulega í veg fyrir að umsækjandi dveljist langdvölum á Íslandi í ólögmætri dvöl eða einungis með heimild til dvalar á meðan dvalarleyfisumsókn er í vinnslu.

Ég get ekki svarað því hér og nú undir hvaða kringumstæðum það er, eða undir hvaða kringumstæðum þetta verður útfært, en það er hins vegar alveg ljóst að taka þarf tillit til fyrri stjórnvaldsákvarðana í beitingu á þessum undanþágum þannig að samræmi sé í því þegar menn kalla eftir framlengingu á dvöl sem getur alla jafna verið þannig að menn eru að sækja eftir framlengingu á dvalarleyfi sem áður hefur verið gefið út.

Ég hvet því hv. þingmann eða hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að skoða þetta nánar, en kalla eftir raunhæfum dæmum frá Útlendingastofnun sem kann að hafa slík dæmi. Það kann hins vegar að vera útilokað að sjá fyrir allar mögulegar aðstæður í þeim efnum. En ég vænti þess að þetta verði skoðað.